Ég fann til með Söru

Lotta Schelin skorar eitt af 88 mörkum sínum fyrir sænska …
Lotta Schelin skorar eitt af 88 mörkum sínum fyrir sænska landsliðið á EM 2013. AFP/Jonathan Nackstrand

Lotta Schelin, fyrrverandi landsliðskona Svíþjóðar í knattspyrnu og leikmaður með Lyon í Frakklandi í átta ár, segir að það hafi verið leiðinlegt að sjá hvernig sitt gamla félag kom fram við Söru Björk Gunnarsdóttur.

Sara vann á dögunum mál gegn Lyon er tengist launagreiðslum þegar hún var barnshafandi á árinu 2021 en Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, skikkaði franska félagið til að greiða henni um 13 milljónir íslenskra króna vegna vangoldinna launa.

Schelin ræddi um mál Söru í umræðuþættinum Efter Fem á sænsku sjónvarpsstöðinni TV4. 

„Fyrst og fremst er þetta leiðinlegt mál. Svona stöðu hefði átt að vera búið að girða fyrir með skýrum reglum. Að sjálfsögðu hefði Sara Björk Gunnarsdóttir ekki átt að upplifa þetta. Ég fann til með henni því ég skildi vel tilfinningar hennar og það sem hún þurfti að ganga í gegnum, og það er leitt að sjá að Lyon skyldi gefa þetta fordæmi," sagði Lotta Schelin, sem er 38 ára gömul og lagði skóna á hilluna fyrir  fjórum árum eftir langan og farsælan feril, en hún skoraði 143 mörk í 138 deildaleikjum fyrir Lyon á sínum tíma.

„Það ætti ekki að þurfa að ræða sérstaklega hvað á að gerast þegar þú verður ófrísk, og hvaða hjálp og stuðning þú átt þá að fá frá þínu félagi. Það er ótrúlega leiðinlegt að sjá Lyon fara þessa leið. En það er um leið frábært að málinu skuli vera lokið og að FIFA hafi gert lýðum ljóst að allir þurfi að fylgja settum reglum, líka stórt félag eins og Lyon. Þetta er afar mikilvægt mál fyrir alla, nú vita allir hvar þeir standa," sagði Lotta Schelin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert