Fyrrum skólastjóri Melaskóla ósáttur við starfslok

Fyrrverandi skólastjóri og núverandi skrifstofustjóri Melaskóla, Björn Ottesen Pétursson, segir farir sínar ekki sléttar eftir skipulagsbreytingar skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar sem kynntar voru í síðastliðinni viku.

Björn hefur starfað í skólanum um áratugaskeið en skóla- og frístundasvið réðst í skipulagsbreytingar í kjölfar uppsagnar Björgvins Þórs Þórhallssonar sem hafði þá verið skólastjóri í fimm ár. Birni þykir einkennilega staðið að þessari skipulagsbreytingu en óskar nýjum skólastjóra góðs gengis.

Réðu inn tvo nýja skólastjóra

Jón Pétur Zimssen, áður skólastjóri Réttarholtsskóla og aðstoðarmaður Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra, var ráðinn inn sem skólastjóri Melaskóla eftir brotthvarf Björgvins. Styr hefur staðið um æðstu stjórn Melaskóla en Helga Jóna Pálmadóttir aðstoðarskólastjóri hafði meira og minna sinnt skólastjórnun í fjarveru Björgvins. Ánægja ríkti meðal starfsfólks og kennara um störf Helgu að sögn Björns en skipulagsbreytingar í skólanum höfðu verið í burðarliðnum í einhvern tíma.

Ásamt Jóni Pétri mun Harpa Reynisdóttir ganga til liðs við skólann og gegna þar stöðu aðstoðarskólastjóra samhliða Helgu, þar af leiðandi verða tveir aðstoðarskólastjórar.

Jón Pétur Zimsen.
Jón Pétur Zimsen. mbl.is/Valli

Viss um að Jón Pétur muni standa sig vel

Þessi niðurstaða kom Birni í opna skjöldu en hann fagnar komu Jóns Péturs og er handviss um að hann sé afar fær og góður skólastjóri. Hann sendi bréf þess efnis á starfsmenn og hvatti þá eindregið til þess að styðja Jón Pétur í sínu nýja starfi. Þrátt fyrir ánægju með ráðninguna telur hann skóla- og frístundasvið hafa að einhverju leyti hafa gengið framhjá millistjórnendum með þessari ráðningu sem að hans mati hefði verið einfaldari og skjótvirkari lausn. Hann fullyrðir að ekki Helgu hafi ekki verið boðin staðan af Skóla- og frístundasviði.

Í bréfi skóla- og frístundasviðs til foreldra kom fram að staða Björns hefði verið lögð niður sem hluti af skipulagsbreytingunum en sama gildi um stöðu sérkennslustjóra sem Þóra Ársælsdóttir hafði sinnt. Þá var áréttað að starfslok þeirra væru til kominn vegna skipulagsbreytinga en þetta hefði ekkert með starf eða persónu þeirra að gera.

Lífsstarf í þágu nemenda og foreldra Melaskóla

Starfsævi Björns innan Melaskóla spannar langt skeið en hann hóf störf sem kennari 1977 og tók við sem aðstoðarskólastjóri Melaskóla 1994 og var ráðinn skólastjóri 2007. Hann lét af störfum í skólanum seinna en sneri svo aftur sem skólaliði og sinnti síðast stöðu skrifstofustjóra, staða sem skóla- og frístundasvið lagði niður núna í síðustu viku.

Foreldrafélag Melaskóla spurðist sérstaklega fyrir um þessi starfslok Björns og Þóru á fundi með fulltrúum skóla- og frístundasviðs sem ítrekuðu að þau væru til komin eingöngu vegna skipulagsbreytinga en hefðu ekkert með einstaklinganna tvo að gera. Í tilkynningu á Facebook þakkar stjórnin Birni og Þóru fyrir lífsstarf þeirra í þágu nemenda og foreldra í Melaskóla og segja það eindregna ósk sína og trú að staðið verði að starfslokum þeirra beggja með fullum sóma.

Ekki náðist í fulltrúa skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka