Fyrst og fremst heiður

Viktor Karl Einarsson lék sína fyrstu landsleiki gegn Úganda og …
Viktor Karl Einarsson lék sína fyrstu landsleiki gegn Úganda og Suður-Kóreu. mbl.is/Unnur Karen

Viktor Karl Einarsson spilaði sína fyrstu A-landsleiki í fótbolta gegn Úganda og Suður-Kóreu í Tyrklandi í vikunni. Viktor er vitaskuld ánægður með áfangann en hann er leikmaður Breiðabliks.

„Það er fyrst og fremst heiður og einhvers konar verðlaun fyrir vel unnin störf. Maður er stoltur að vera kominn inn í þennan hóp fyrir þetta verkefni og fá smjörþefinn. Þetta lætur mann vilja vinna enn harðar til að fá fleiri leiki,“ sagði Viktor Karl á blaðamannafundi eftir 1:5-tap á móti Suður-Kóreu í dag.

„Við töluðum um að fyrri hálfleikur hafi verið mjög erfiður. Við vorum að hlaupa óþörf hlaup og vorum ekki að segja pressu á þá. Þeir fóru illa með okkur. Við gerðum betur í seinni hálfleik en við hefðum getað skapað okkur fleiri færi.

Þeir voru allir rosalega samstilltir og þeir voru búnir að ákveða hvað þeir voru að gera áður en þeir gerðu það. Þeir voru hraðari í öllum sínum aðgerðum og refsuðu um leið og við gáfum færi á okkur. Það þurfti bara einn leikmaður hjá okkur að vera seinn og þá vorum við allir eftir á,“ sagði Viktor um leikinn í dag.

Viktor, sem er 24 ára, hefur leikið með Breiðabliki frá árinu 2019 eftir tíma hjá AZ Alkmaar í Hollandi og Värnamo í Svíþjóð. Hann hefur áhuga á að spreyta sig erlendis á nýjan leik. „Það er tækifæri fyrir mig að fá kallið í þessum glugga. Ég er lítið að pæla í þessu en vonandi gerist eitthvað,“ sagði Viktor.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert