Þriðjungur flotans varð fyrir skemmdum

Stór hluti keppena hlaut minniháttar meiðsli.
Stór hluti keppena hlaut minniháttar meiðsli. Ljósmynd/Ingvar Björnsson

Keppendurnir sem slösuðust í sigl­inga­keppn­inni Vendée Arct­ique, sem aflýst var vegna veðurs á föstudagskvöld, hafa nú yfirgefið landið um borð í flugvél. Þá kom önnur áhöfn í staðinn til Íslands og sigldi skútunni, sem varð eftir í Berufirði, suður á bóginn en hún varð ekki fyrir miklum skemmdum, að sögn Ingvars Björnssonar, framkvæmdastjóra Siglingaklúbbs Austurlands.

Skútunni sem var siglt inn í Fárskrúðsfjörð kom þó ekki jafn vel út úr atburðarrásinni um helgina og varð fyrir töluvert meira tjóni. Er hún nú stödd á Reyðarfirði. 

Ætla að skoða atburðarrásina

Eins og mbl.is hefur greint frá þurftu keppendur í siglingakeppninni Vendée Arct­ique, sem hófst í Frakklandi í síðustu viku, skyndilega að hætta keppni vegna lægðar undir austurströnd Íslands. Keppendur, sem voru 25 talsins, áttu að sigla skútum norður fyrir Ísland, yfir heimskautsbauginn og svo aftur til Frakklands. Það gekk þó ekki upp.

Enginn er í alvarlega slasaður eftir keppnina, að sögn Ingvars.
Enginn er í alvarlega slasaður eftir keppnina, að sögn Ingvars. Ljósmynd/Ingvar Björnsson

Um þriðjungur flotans í keppninni varð fyrir miklu tjóni í veðrinu, að sögn Ingvars, og voru skemmdirnar það slæmar að ekki var hægt að halda áfram. Þurfti hluti keppenda að leita skjóls í Fárskrúðsfirði. 

Siglingaklúbbur Austurlands á Eskifirði mun fara yfir atburðarásina með keppnishöldurum og Siglinga sambandi Íslands.

Allir heilir og höldnu

Þá þurftu tveir skipverjar að komast undir læknishendur hér á landi eftir að skúta þeirra fékk á sig straumhnút sem jafnast á við að lenda á vegg. Fóru þeir inn í Berufjörð á skútunni en björgunarskipið Ingibjörg flutti þá síðan til Djúpavogs.

Að sögn Ingvars slasaðist enginn alvarlega í keppninni en hann hefur þó ekki fengið nákvæmar upplýsingar af þeim sem hlutu verstu áverkana. Stór hluti keppenda hlaut einhver minniháttar meiðsli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka