Verður Pogba einn sá launahæsti?

Paul Pogba verður samningslaus næsta sumar.
Paul Pogba verður samningslaus næsta sumar. AFP

Paul Pogba, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, er í viðræðum við félagið um nýjan samning en núverandi samningur hans rennur út næsta sumar.

The Express greinir frá því United sé tilbúið að borga honum 400.000 pund á viku í laun, tæplega 71 milljón íslenskra króna, sem myndi gera hann að einum launahæsta leikmanni úrvalsdeildarinnar.

Pogba, sem er 28 ára gamall, gekk til liðs við United frá Juventus sumarið 2016 en hefur ekki alltaf náð að sýna sínar bestu hliðar í búningi United.

Alls á hann að baki 212 leiki fyrir United í öllum keppnum þar sem hann hefur skorað 38 mörk og lagt upp önnur 49.

Hann hefur verið reglulega orðaður við lið á borð við Barcelona, Real Madríd og Juventus undanfarin ár en öll félögin gætu reynt að klófesta leikmanninn þegar hann verður samningslaus.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert