Handbolti

Losuðu sig við þjálfara­t­eymið eftir von­brigðin á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Hrvoje Horvat náði ekki nógu góðum árangri með landslið Króatíu að mati forsvarsmanna króatíska handknattleikssambandsins.
Hrvoje Horvat náði ekki nógu góðum árangri með landslið Króatíu að mati forsvarsmanna króatíska handknattleikssambandsins. EPA-EFE/Andreas Hillergren

Króatía olli vonbrigðum á HM karla í handbolta í janúar með því að enda í 9. sæti og nú hefur nýr landsliðsþjálfari verið kynntur til sögunnar.

Hrvoje Horvat hafði stýrt Króatíu í tvö ár en hann og hans teymi varð að taka pokann sinn eftir HM. Markmið Króatíu hafði verið að komast áfram í 8-liða úrslit.

Króatar voru reyndar eina liðið sem heimsmeisturum Danmerkur mistókst að vinna en liðin gerðu 32-32 jafntefli í milliriðli. Tap gegn Egyptalandi í fyrsta leik mótsins, eina tap Króatíu, reyndist hins vegar dýrkeypt.

Hinn sextugi Goran Perkovac hefur verið ráðinn í stað Horvats. Perkovac var á sínum tíma landsliðsmaður Króatíu og lék meðal annars með liðinu sem varð Ólympíumeistari í Atlanta árið 1996.

Perkovac hefur áður þjálfað landslið Grikklands árin 2007-2008 og landslið Sviss árin 2008-2013. Hann hefur stærstan hluta þjálfaraferilsins þjálfað í Sviss, lið á borð við Kadetten Schaffhausen, Pfadi Winterthur og Kriens Luzern, en einnig í Þýskalandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×