Hugarfarið og ákefðin skiptu sköpum

Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis, var ánægður með sína menn …
Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Leiknis, var ánægður með sína menn í kvöld. Ljósmynd/Haukur Gunnarsson

„Mér fannst hugarfarið og ákefðin vera það sem skildi á milli,“ segir Sigurður Höskuldsson, þjálfari Leiknismanna, en hann var að vonum kampakátur með 2:0-heimasigur síns liðs á Stjörnunni í úrvalsdeild karla í knattspyrnu í kvöld.

Hann var sérstaklega ánægður með örugga og fumlausa frammistöðu Leiknismanna í síðari hálfleik, þar sem þeir sigldu öruggum sigri í höfn, en bæði mörk Leiknis komu í fyrri hálfleik. „Fyrri hálfleikurinn var jafnari, en mér fannst við sýna einhverja okkar bestu frammistöðu í sumar í seinni hálfleik. Ég er virkilega stoltur af strákunum,“ segir Sigurður.

Hjalti Sigurðsson skoraði seinna mark Leiknis á 26. mínútu en hann er nýgenginn í raðir liðsins frá KR, en hann hefur áður verið hjá Leikni á láni. „Við þekkjum Hjalta vel, hann hefur komið hingað síðustu tvö tímabil, þannig að við vissum nákvæmlega hvað við vorum að fá,“ segir Sigurður. „Hann hefur þessi mörk í sér, sem eru svo mikilvæg, svo er hann frábær karakter sem smellpassar í hópinn.“

Með sigrinum fór Leiknir upp í 6. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir KA í því fimmta, en búið að spila einum leik meira. Þessi tvö lið spila innbyrðis á sunnudaginn. „Við horfum bara fram á við, við erum að bæta leik okkar og ætlum að halda því áfram. Þá fylgja stigin með,“ segir Sigurður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert