Spilar Ronaldo 200. leikinn á Íslandi?

Cristiano Ronaldo hefur leikið 196 landsleiki fyrir Portúgal.
Cristiano Ronaldo hefur leikið 196 landsleiki fyrir Portúgal. AFP/Fabrice Coffrini

Cristiano Ronaldo verður áfram með portúgalska landsliðinu í knattspyrnu í leikjunum tveimur sem fram undan eru í undankeppni Evrópumótsins en nýr þjálfari þess, Roberto Martínez, valdi sinn fyrsta hóp í dag.

Ronaldo er í hópnum og þar með aukast líkurnar á því að hann muni ná þeim einstaka áfanga að spila 200 landsleiki fyrir þjóð sína þegar Ísland tekur á móti Portúgal á Laugardalsvellinum 20. júní.

Ronaldo hefur leikið 196 landsleiki og setur nýtt heimsmet á þeim vettvangi í næsta leik sem hann spilar en hann deilir núna landsleikjametinu með Bader Al-Mutawa frá Kúveit, sem reyndar er ekki hættur að leika með sínu landsliði enn þá.

Portúgal mætir Liechtenstein og Lúxemborg dagana 23. og 26. mars, og spili Ronaldo báða leikina, sem og leik Portúgals og Bosníu 17. júní, getur hann spilað 200. leikinn á Laugardalsvellinum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert