HK einum sigri frá því að tryggja sæti sitt

Elna Ólöf Guðjónsdóttir skoraði sjö mörk fyrir HK í kvöld.
Elna Ólöf Guðjónsdóttir skoraði sjö mörk fyrir HK í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

HK vann góðan 24:21-sigur á ÍR í öðrum leik liðanna í umspili um sæti í úrvalsdeild kvenna í handknattleik í Breiðholti í kvöld. HK leiðir nú 2:0 í einvíginu og þarf á einum sigri til viðbótar að halda til þess að tryggja sæti sitt í deildinni.

HK fór með örugga forystu til leikhlés, 13:8, eftir að hafa leikið frábæran varnarleik.

Í síðari hálfleik reyndi ÍR að koma sér betur inn í leikinn en tókst aðeins að komast fjórum mörkum frá HK, eða allt þar til í blálokin.

Eftir gott áhlaup tókst ÍR að minnka muninn niður í tvö mörk, 23:21, en HK skoraði síðasta mark leiksins og vann þannig þriggja marka sigur.

Markahæst í liði HK og í leiknum var Elna Ólöf Guðjónsdóttir með sjö mörk. Þar á eftir var Jóhanna Margrét Sigurðardóttir með fimm mörk.

Hjá ÍR var Karen Tinna Demian markahæst með sex mörk og næst á eftir henni var Anna María Aðalsteinsdóttir með fjögur mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka