Aldrei sinnt eins mörgum foktjónum í maí

Veðrið lék landsmenn grátt í dag. Mynd úr safni.
Veðrið lék landsmenn grátt í dag. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Framkvæmdastjóri fyrirtækisins Aðstoð og öryggi ehf., sem rekur Árekstur.is, segir starfsmenn sína hafa sinnt metfjölda foktjónatilfella í dag miðað við árstíma. Fjúkandi trampólín, bílhurðir og innkaupakerrur hafi valdið tjóni á fjölda bíla í dag vegna veðursins.

 „Þetta hefur aldrei gerst svona, að við höfum verið að sinna svona mörgum foktjónum í maí. Þetta er tíminn sem við notum til að hlaða batteríin fyrir komandi sumar og vetur þannig að, að fá svona dag í maí er vægast sagt mjög skrítið,“ segir Kristján Ö. Kristjánsson framkvæmdastjóri Aðstoðar og öryggis ehf. í samtali við mbl.is.

Hann segir annað eins ekki hafa gerst í fjórtán ára sögu fyrirtækisins en á þriðja tug tjónatilkynninga komu á þeirra borð í dag.

„Þetta er eitthvað sem við erum að sjá í janúar febrúar, við þurftum að dusta af regngöllunum okkar. Þetta var bara eins og góður dagur í febrúar,“ segir Kristján.

Fólk hafi verið værukært 

Bílhurðir hafi gjarnan hafa verið að fjúka upp og valda tjónum en einnig hafi innkaupakerrur og trampólín valdið skemmdum.

„Þetta er svolítið skrítið, að lesa fréttirnar í morgun og sjá þessar viðvaranir, ég held að fólk hafi bara verið værukært, ekki að trúa þessu,“ segir Kristján en tilkynningarnar hafi farið að berast til þeirra í hrönnum eftir hádegi.

Fyrirtækið var í því að sinna foktjónum og skemmdum á bifreiðum í allan dag. Fimm bílar fyrirtækisins voru á keyrslu um allan bæ og segir Kristján það varla hafa mátt vera minna. Almennt sér fyrirtækið um að sinna fólki sem lendir í umferðaróhöppum, aðstoðar við tjónaskýrslur og fleira í þeim dúr.

Þetta fer kannski í sögubækurnar?

Jah, vonandi. Vonandi fáum við ekki fleiri svona daga,“ segir Kristján.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert