Samstarfsmaður Giuliani fundinn sekur

„Ég hef aldrei falið mig fyrir neinum,“ sagði Parnas sjálfur, …
„Ég hef aldrei falið mig fyrir neinum,“ sagði Parnas sjálfur, hér til vinstri. AFP

Lev Parnas, sem áður var samstarfsmaður Rudy Giuliani, fyrrverandi lögmanns Donald Trump, var sakfelldur í dag í sex mismunandi ákærum sem hann hafði staðið frammi fyrir.

New York Times greinir frá.

Kviðdómur taldi Parnas sekan um að hafa samið við samsærismenn um að nota peninga rússnesks bakhjarls til pólitískra fjárframlaga sem þeir vonuðust til að skipta fyrir pólitískan greiða fyrir sameiginlegt kannabisverkefni sitt.

Úkraínski kaupsýslumaðurinn var einnig sakfelldur fyrir að nota peninga frá Igor Fruman, sem hafði játað sekt sína, og falsfyrirtækja til að koma hundruðum þúsunda bandaríkjadala pólitískra fjárframlaga til nefnda sem hliðhollar eru Donald Trump og ljúga síðan um það fyrir alríkiskjörstjórninni.

Þá hefur hann viðurkennt að hafa tekið þátt í tilraun Giuliani til að þrýsta á úkraínska embættismenn um að rannsaka Joe biden, leiðandi forsetaframbjóðanda demókrata á þeim tíma, sem kom síðan til með að sigra Trump í forsetakosningunum.

Lagt á ráðin um að hagræða bandaríska stjórnmálakerfinu

Í yfirlýsingu sagði saksóknarinn Damian Williams að Parnas hefði lagt á ráðin um að hagræða bandaríska stjórnmálakerfinu til þess að hann gæti sjálfur hagnast.

Þá sagði lögmaður Parnas, Joseph A. Bondy, í ræðu fyrir utan dómstóla í dag eftir að dómurinn hafði verið kveðinn upp að skjólstæðingur hans hygðist áfrýja og leitast við að fá sakfellinguna ógilda.

„Ég hef aldrei falið mig fyrir neinum,“ sagði Parnas sjálfur og þakkaði stuðningsmönnum sínum. „Ég hef alltaf staðið upp og sagt sannleikann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert