Spáir fjölgun í þjóðkirkjunni

Agnes M Sigurðardóttir biskup Íslands.
Agnes M Sigurðardóttir biskup Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands spáir því að fjölga muni í þjóðkirkjunni á komandi árum. 

„Fækkað hefur í kirkjunni í Evrópu undanfarna áratugi og sögulega nær sú þróun gjarnan seinast til Íslands. Nú er hins vegar eins og að þessi þróun sé að snúast við; það sjáum við til dæmis í Svíþjóð. Fólk er að ganga aftur til liðs við kirkjuna og vill fá meira frá henni. Þetta gæti líka átt eftir að gerast hér á landi eftir tíu ár eða svo,“ segir hún.

Hvað veldur þessum viðsnúningi?

„Heimurinn er að breytast. Kirkjan sem ég ólst upp í er ekki sú sama lengur; þjóðfélagið er ekki það sama lengur. Við búum við breyttar aðstæður eins og margoft kemur fram í fjölmiðlum og samfélaginu. Fólk hefur ekki haft eins mikla þörf fyrir trú á síðustu árum og áratugum og áður fyrr en eitthvað er að breytast.

Kannski vegna þess að kirkjan hefur alltaf haldið sínu striki, aldrei gefist upp og ekki sofnað á verðinum. Og boðskapurinn er jafngóður og -skýr og alltaf – erindi fagnaðar en ekki harms. Fólk sem kynnist því lífsviðhorfi er alla jafna þakklátt og vill meira. Sjálf finn ég að fólk er upp til hópa andlega leitandi.“

Hefur keyrt um þverbak í efnishyggjunni?

„Það má segja það, já. Auðvitað getur efnis­hyggjan upp að vissu marki gefið lífsfyllingu og ég skil vel að fólk hugsi um fjármál. Öll þurfum við að eiga til hnífs og skeiðar. En fleira þarf að komast að. Svo sjáum við líka hvað heimurinn er fallvaltur, þegar eitt ríki ræðst á annað. Það færir okkur heim sanninn um það að efnis­hyggjan sé ekki nógu örugg og farsæl. Þess utan eiga trú og vísindi nú aukna samleið.“

Nánar er rætt við biskupinn í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert