Múslimar koma til Íslands til þess að búa við frið

Karim segir að múslimar á Íslandi upplifi ekki mikla fordóma.
Karim segir að múslimar á Íslandi upplifi ekki mikla fordóma. mbl.is/Eggert

„Múslimar hafa góða reynslu af því að búa á Íslandi,“ segir Karim Askari, stjórnarformaður Stofnunar múslima á Íslandi, í samtali við mbl.is en Morgunblaðið birti í dag könnun Gallup um trúmál.

Þar kemur fram að Íslendingar hafa töluverðar áhyggjur af útbreiðslu íslams í landinu og liðlega helmingur er andvígur henni.

Könnun Gallup var gerð dagana 27. ágúst til 6. september …
Könnun Gallup var gerð dagana 27. ágúst til 6. september og svöruðu 860 manns í netkönnun af 1.624 manna úrtaki á landinu öllu. mbl.is

Karim segist ekki hafa áhyggjur af niðurstöðu Gallup könnunarinnar. „Múslimar á Íslandi lifa undir reglum og lögum íslenskra stjórnvalda, það má ekki gleymast. Við erum í stöðugu samstarfi við stjórnvöld og höfum ekki lent í neinum vandræðum hingað til.“

Karim Askari, framkvæmdastjóri Stofnunar múslima á Íslandi.
Karim Askari, framkvæmdastjóri Stofnunar múslima á Íslandi.

Hann segir að múslimar á Íslandi upplifi ekki mikla fordóma. „Stærstur hluti íslenskra múslima eru stoltir af Íslandi og þakklátir fyrir það sem íslenskt samfélag gefur þeim. Fólk vill bara búa við frið og öryggi.“

Leggja áherslu á að aðlagast samfélaginu

Karim nefnir að í mosku Stofnunar múslima á Íslandi er fólk frá meira en 30 löndum. „Margir eru hér sem flóttafólk og bjuggu því ekki við frið í heimalandi sínu svo sem í Sýrlandi, Írak og Afganistan. Þetta fólk flúði kúgun og stríð og vill bara búa við öryggi. Þess vegna kemur það til Íslands.“

Hann segir að múslimar á Íslandi vilji vera góðir þegnar í samfélaginu og leggja sitt af mörkum eins og hægt er.

Þá segir Karim fólk leggja áherslu á að aðlagast menningu og gildum Íslands. „Ef við vinnum í samvinnu við yfirvöld og hjálpum aðfluttum að aðlagast samfélaginu þá munum við ná árangri.“

„Getum ekki sagt að allir múslimar eru slæmir“

Telur þú að staðan í Afganistan muni ýta undir fordóma fólks gegn múslimum?

„Nei, ég held það ekki. Fjölmiðlar gefa bjagaða mynd af ástandinu. Ef talíbanar sýna fram á að þeir geti stutt við mannréttindi þá mun heimurinn samþykkja þá. Ef þeir gera mistök þá er það þeirra mistök en ekki trúarinnar. Við getum ekki kennt íslam um mistök og misskilning þeirra, það kemur frá menningunni og bakgrunn þeirra,“ segir Karim.

„Við getum ekki sagt að allir múslimar séu slæmir af því að þeir eru manneskjur, það eru til góðar og slæmar manneskjur alls staðar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert