Afturelding hlutskarpari í fyrsta leik

Saga Sif Gísladóttir átti stórleik í marki Aftureldingar.
Saga Sif Gísladóttir átti stórleik í marki Aftureldingar. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Afturelding hafði betur gegn Gróttu, 28:24, í fyrsta leik liðanna í úrslitum umspils um laust sæti í úrvalsdeild kvenna í handknattleik í Mosfellsbæ í kvöld.

Vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sigur í umspilinu og sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili.

Annar leikur liðanna fer fram á Seltjarnarnesi næstkomandi fimmtudag.

Mikið jafnræði var með liðunum til að byrja með og var staðan jöfn, 7:7, eftir 13 mínútna leik.

Þegar líða tók á fyrri hálfleik náði Afturelding undirtökunum og komst þremur mörkum yfir, 14:11. Grótta lagaði aðeins stöðuna í kjölfarið og voru heimakonur yfir, 16:14, í hálfleik.

Mosfellingar hófu síðari hálfleikinn af krafti og komust í 18:14. Þá tók Grótta einkar vel við sér og jafnaði metin í 20:20 þegar rúmar 42 mínútur voru liðnar af leiknum.

Þá var röðin aftur komin að Aftureldingu sem skoraði sex mörk gegn einu, komst þannig í 26:21 og fór langt með að tryggja sér sigurinn.

Staðan var svo orðin 28:22 þegar heimakonur slökuðu aðeins á klónni, Grótta skoraði síðustu tvö mörk leiksins og fjögurra marka sigur Aftureldingar niðurstaðan.

Saga Sif Gísladóttir átti stórleik í marki Aftureldingar er hún varði 15 skot.

Markahæst hjá Aftureldingu var Hrafnhildur Hólm Guðnadóttir með fimm mörk.

Hjá Gróttu var Katrín Anna Ásmundsdóttir markahæst, einnig með fimm mörk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert