Farþegi sparkaði í leigubíl og olli tjóni

Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt.
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í gærkvöldi og nótt. mbl.is/Árni Sæberg

Í gærkvöldi og nótt var tilkynnt um tvær líkamsárásir í miðbænum, tvær í Hafnarfirði og eina í Árbænum, að fram kemur í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Tekið er fram að einn einstaklingur hafi verið handtekinn vegna annarrar árásarinnar í miðbænum en sá hafi neitað að gefa upp hver hann væri og var vistaður í fangageymslu vegna rannsóknar málsins.

Þrír voru handteknir í tengslum við aðra árásina í  Hafnarfirði, en þeim var sleppt að yfirheyrslum loknum.

Lögreglan hafði afskipti af ökumanni í hverfi 104 sem reyndist með töluvert magn áfengis í bíl sínum og eftir samtal féll á hann grunur um ólöglega sölu áfengis.

Þá var lögreglan kölluð til að hóteli í miðbænum í gærkvöldi vegna ofurölvi gests sem var til vandræða og neitaði að fara til herbergis. Ekki er tekið fram hverjar málalyktir urðu; hvort gesturinn gekk til náða í herbergi sínu eða var boðið upp á gistingu í fangageymslu lögreglunnar.

Leigubílstjóri óskaði einnig eftir aðstoð lögreglu vegna farþega sem sparkaði í leigubifreiðina og tjónaði hana eftir að komið var á leiðarenda.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert