Félagsmenn spyrja út í afnám lögverndunar

Telma Eir Aðalsteinsdóttir.
Telma Eir Aðalsteinsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Stjórn Félags viðskipta- og hagfræðinga mun funda á fimmtudaginn vegna frumvarps sem ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra hefur lagt fram til samráðsgáttar stjórnvalda þar sem m.a. er kveðið á um að fella niður lögverndun starfsheita viðskiptafræðinga og hagfræðinga.

Með frumvarpinu á að einfalda regluverk hins opinbera í atvinnumálum. 

Félagið ætlar ekki að tjá sig opinberlega um frumvarpið fyrr en tekinn hefur verið púlsinn á félagsmönnum. „Það eru félagsmenn sem eiga félagið og við viljum vera viss um hver þeirra vilji er,“ segir Telma Eir Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri Félags viðskipta- og hagfræðinga.  

Ályktanir hafa þegar borist frá félagsmönnum og spyrja þeir meðal annars að því hvers vegna þetta afnám lögverndunar snýr að starfsheitum þeirra en ekki annarra. 

Frumvarpið var ekki unnið í samráði við félagið. Að sögn Telmu var félagið upplýst um að hugsanlegar breytingar væru í bígerð hjá ráðuneytinu en ekki hverjar þær yrðu nákvæmlega.

Alls eru á milli tvö og þrjú þúsund greiðandi félagsmenn í Félagi viðskipta- og hagfræðinga.

Hingað til hefur það verið þannig að félagið hefur setið í nefnd með ráðuneytinu þar sem farið er yfir þær umsóknir sem berast þar sem óskað er eftir lögverndun starfsheitis. Allir sem útskrifast úr viðurkenndum háskóla á Íslandi mega kalla sig viðskipta- eða hagfræðing og þurfa því ekki að fara fyrir nefndina. Þeir sem hafa stundað nám erlendis þurfa aftur á móti að sækja sérstaklega um að öðlast lögverndun.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert