Kynntur til leiks með sígarettu

Maurizio Sarri hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Lazio.
Maurizio Sarri hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri Lazio. AFP

Maurizio Sarri hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri ítalska A-deildarfélagsins Lazio. Þetta tilkynnti félagið með skemmtilegri færslu á samfélagsmiðlum sínum í dag.

Félagið birti mynd af sígarettu en Sarri, sem er 62 ára gamall, er stórreykingamaður og var þekktur fyrir að naga sígarettur á hliðarlínunni þegar hann var stjóri Chelsea á Englandi.

Stjórinn skrifaði undir tveggja ára samning við Lazio en hann hefur einnig stýrt liðum á borð við Empoli, Napoli og Juventus á stjóraferli sínum.

Hann gerði Juventus að Ítalíumeisturum á síðustu leiktíð en var rekinn eftir tímabilið og var Andrea Pirlo ráðinn í hans stað.

Lazio hafnaði í sjötta sæti ítölsku A-deildarinnar á síðustu leiktíð og leikur í Evrópudeildinni á komandi keppnistímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert