Ákæra gefin út fyrir brot á vopna- og fíkniefnalögum

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gaf út ákæru vegna brota á vopna- …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gaf út ákæru vegna brota á vopna- og fíkniefnalögum. mbl.is/Golli

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur gefið út ákæru vegna brota á vopnalögum og fíkniefnalögum á hendur sama Íslendingi og sat í gæsluvarðhaldi vegna manndrápsins í Rauðagerði í febrúar. Ákæran kom í kjölfar húsleitar á heimili hans árið 2019. DV greindi fyrst frá málinu.

Steinbergur Finnbogason, lögmaður mannsins, staðfestir að ákæran hafi verið gefin út. Hann segir að búið sé að afgreiða flesta þætti ákærunnar en að skjólstæðingur hans neiti sök vegna þess litla sem út af stendur. Það verði til lykta leitt í aðalmeðferð málsins sem er áætluð síðar á árinu.

Höfðar bótamál vegna Rauðagerðismálsins

Maðurinn var meðal þeirra sem sættu gæsluvarðhaldi og síðar farbanns vegna manndrápsins í Rauðagerði í febrúar. Hann var ekki ákærður fyrir málið. Fjórir einstaklingar voru ákærðir og hefur einn þeirra, Angelin Sterkaj, játað að hafa orðið Armando Beqirai að bana.

Maðurinn fékk nýverið bréf um að hann sé ekki lengur sakborningur í málinu. Steinbergur Finnbogason lögmaður hans undirbýr nú bótamál vegna málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka