Hlutafé í greiðslumiðlunarfélaginu Salt Pay var aukið um alls 63 milljónir að nafnvirði á seinni hluta síðasta árs í aðskildri hlutafjáraukningu og skuldbreytingu. Heildargreiðsla fyrir hlutina nam rétt rúmum milljarði.

Hlutafjáraukningin nemur 373 milljónum króna, eða 23 milljónum hluta að nafnvirði á genginu 16,23, og var samþykkt á hluthafafundi í október síðastliðnum. Móðurfélag og eini hluthafi hins íslenska félags, SaltPay IIB hf., greiddi fyrir hlutaféð.

Skuldbreytingin varðaði 5 milljóna Bandaríkjadala skuld félagsins við Salt Pay Europe, sem framseld hafði verið til móðurfélagsins Salt Pay Co Ltd. Gefnar voru út 40 milljónir nýrra hluta í desember, sem greitt var fyrir með skuldajöfnun á móti umræddri kröfu.

Fram kemur í skýrslu um málið að gengið hafi verið 16,17 krónur á hlut, eða 647 milljónir króna, sem jafngildir 5 milljónum dala á genginu 129,36 krónur. Eftir hlutafjáraukningar síðasta árs nemur hlutafé félagsins 443 milljónum að nafnvirði.

Salt Pay hét áður Borgun og var selt til erlenda fjárfesta árið 2020. Fram að þeim viðskiptum var félagið í meirihlutaeigu Íslandsbanka.

Rekstur félagsins hefur skilað tapi á liðnum árum. Tapreksturinn nam 1,2 milljörðum árið 2020 og tæplega 900 milljónum árið á undan.