Stærstu fimleikahátíðinni aflýst

Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri FSÍ.
Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri FSÍ. Ljósmynd/FSÍ

Eurogym-fimleikahátíðinni sem fara átti fram hér á landi í júlí á næsta ári hefur verið aflýst vegna kórónuveirufaraldursins en þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Fimleikasamband Íslands, FSÍ, sendi frá sér í dag.

Upphaflega átti hátíðin að fara fram hér á landi í sumar en henni var frestað til sumarsins 2021 vegna veirunnar.

Um 5.000 ungmenni voru væntanlega hingað til lands til þess að taka þátt í hátíðinni frá allt að tuttugu Evrópulöndum en ákvörðunin um að fresta hátíðinni var tekin af bæði FSÍ og evrópska fimleikasambandinu.

Ljósmynd/FSÍ

Unnið hefur verið að undirbúningi Eurogym á Íslandi síðan árið 2018. 

 „Við erum í raun miður okkar yfir því að geta ekki haldið hátíðina og kynnt skipulagt  íþróttastarf fimleikahreyfingarinnar fyrir ungmennum á Íslandi sem hafa gaman af íþróttum og þátttöku. En við viljum sýna gott fordæmi og viljum ekki stefna heilsu neins í voða,‟ sagði Sólveig Jónsdóttir, framkvæmdastjóri FSÍ.

„Fimleikahátíðin Eurogym er gríðarlega stór viðburður og felur í sér miklar fjárhagsskuldbindingar, bæði fyrir Fimleikasambandið og Reykjavíkurborg, sem hefur staðið þétt við bakið á Fimleikasambandinu í öllu ferlinu. Eins verður að hafa í huga að þeir þátttakendur sem hugðust taka þátt í hátíðinni hafa þurft að leggja út fyrir kostnaðarsömu og löngu ferðalagi að viðbættum kostnaði sem fylgir þátttöku í viðburði á borð við fimleikahátíðina Eurogym.

Við og allir hlutaðeigandi höfum lagt mikla vinnu í undirbúning Eurogym á Íslandi. En við vildum alls ekki að 5.000 ungmenni myndi tapa háum fjárhæðum til viðbótar og töldum mikilvægt að taka ákvörðun með góðum fyrirvara svo enginn færi út í slík fjárútlát. Ábyrgð og gott fordæmi hefur ráðið öllum okkar aðgerðum og því höfum við lagt áherslu á að vinna náið og vel saman með öllum sem tengdust hátíðinni,‟ bætti Sólveig við.

Ljósmynd/FSÍ
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert