Erlent

Segir af sér vegna minka­málsins

Atli Ísleifsson skrifar
Mogens Jensen tók við ráðherraembætti í júní 2019.
Mogens Jensen tók við ráðherraembætti í júní 2019. Getty

Mogens Jensen, ráðherra matvæla-, sjávarútvegs- og landbúnaðarmála Danmerkur, hefur sagt af sér embætti vegna minkamálsins svokallaða.

Hart hefur verið sótt að Jensen vegna ákvörðunar danskra stjórnvalda að ráðast í að lóga öllum minkum á minkabúum landsins vegna afbrigðis kórónuveiru, án þess að hafa til þess lagaheimild.

Jensen segir í samtali við DR að honum þyki ljóst að hann njóti ekki lengur stuðnings þingflokka – stuðnings sem sé nauðsynlegur til áframhaldandi starfa.

Greint var frá því í gær að meirihluti hafi náðst á þingi um að lóga skyldi öllum þeim 14 milljónum minka sem eru í landinu.

Fréttir bárust einnig af því í gær að stökkbreytt afbrigði kórónuveirunnar hafi fundist á nokkrum minkabúum til viðbótar í landinu. Þá var sagt frá því að um tvö hundruð starfsmenn minkabúa í landinu hafi greinst með veiruna.

4. nóvember síðastliðinn greindi Frederiksen frá því að ákveðið hafi verið að lóga öllum minkum í landinu. Ákvörðunin sætti hins vegar mikilli gagnrýni eftir að í ljós kom að ríkisstjórnin hafði ekki lagaheimild til að grípa til þessa ráðs og beindust spjótin þá sérstaklega að landbúnaðarráðherranum Jensen sem nú hefur sagt af sér.

Samkvæmt samkomulaginu frá í gær munu minkaræktendur fá 30 danskar krónur á hvern mink sem er aflífaður. Þá verður óheimilt að rækta minka í landinu til ársloka 2021.

Jensen er hefur verið þingmaður Jafnaðarmannaflokksins frá árinu 2005. Hann tók við ráðherraembætti sumarið 2019.


Tengdar fréttir

Danskir minkabændur ósáttir

Danmerkurstjórn fékk upplýsingar um að hún mætti ekki fyrirskipa að allir minkar í landinu yrðu drepnir meira en viku áður en Mette Frederiksen forsætisráðherra tilkynnti um fyrirskipun þess efnis.

Vissu að minkatilskipunin var ólögleg

Að minnsta kosti viku áður en danski forsætisráðherrann Mette Frederiksen tilkynnti um að allir minkar í landinu yrðu drepnir, vegna stökkbreytts afbrigðis kórónuveiru sem greindist i dýrunum, höfðu embættismenn komist að því að slík fyrirskipun væri ólögleg.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×