Við erum bara svekktir

Ágúst Þór Gylfason á Kópavogsvelli í kvöld.
Ágúst Þór Gylfason á Kópavogsvelli í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn Traustason

Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, var svekktur í samtali við blaðamann mbl.is eftir 2:3 tap Stjörnunnar gegn Breiðabliki í Bestu deild karla í knattspyrnu á Kópavogsvelli í kvöld.

„Ég er bara fyrst og fremst svekktur eftir þennan leik. Þetta var jafn leikur og hefði getað dottið hvoru megin sem var hérna í lokin. Já, við erum bara svekktir núna. Þetta var góð frammistaða. Fullt hrós til strákana og stuðningur var flottur í kvöld. Það vantaði bara að fá eitthvað út úr þessum leik.

Ég var mjög ánægður með það að strákarnir gáfust ekki upp þrátt fyrir það að vera komnir 0:2 undir snemma í leiknum. Við tökum auðvitað ýmislegt með okkur úr þessum leik en það að koma til baka er vel gert hjá okkur en svekkelsi að fá mark á okkur úr föstu leikatriði í lokin. Við ætluðum að fá eitthvað út úr þessum leik í kvöld,“ sagði Ágúst Gylfason.

Nú ertu að spila á mörgum ungum leikmönnum. Er Stjarnan í uppbyggingarfasa núna?

„Við erum á þessari vegferð að spila mikið af ungum strákum og það mun styrkja okkur í framtíðinni og styrkja þessa stráka sömuleiðis,“ sagði Ágúst einnig en í byrjunarliði Stjörnunnar í kvöld voru sex leikmenn fæddir 2001 til ársins 2004.

Nú lokar félagsskiptaglugginn á miðnætti. Verða einhverjar breytingar á hópnum hjá þér?

„Það er stutt í lokun þannig að það er ólíklegt að eitthvað gerist en sjáum til,“ sagði Ágúst Gylfason að lokum við blaðamann mbl.is á Kópavogsvelli í kvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert