Real skoraði fimm

Karim Benzema skoraði þrennu.
Karim Benzema skoraði þrennu. AFP

Real Madrid vann í kvöld 5:2-heimasigur á Celta Vigo í spænsku 1. deildinni í fótbolta. Fæðingin var erfið hjá Real því gestirnir komust tvisvar yfir í fyrri hálfleik.

Santi Mina kom Celta yfir á 4. mínútu en Karim Benzema jafnaði á 24. mínútu. Franco Cervi kom Celta aftur yfir á 31. mínútu og var staðan í hálfleik 2:1, Celta Vigo í vil.

Benzema bætti við sínu öðru marki þegar hann jafnaði í annað sinn á 46. mínútu og Vinícius Júnior bætti við þriðja marki Real á 54. mínútu.

Stórliðið var ekki hætt því nýi leikmaðurinn Eduardo Camavinga bætti við fjórða markinu á 72. mínútu og Benzema fullkomnaði þrennuna á 87. mínútu með marki úr víti og þar við sat.

Real er í toppsætinu með tíu stig, eins og Valencia og Atlético Madrid. Barcelona á leik til góða og getur einnig komist upp í tíu stig með sigri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert