Fótbolti

Flughrædda mamman flaug til að sjá kveðjuleikinn eftir 26 ára feril

Sindri Sverrisson skrifar
Formiga faðmaði móður sína sem loksins sá hana spila landsleik með berum augum.
Formiga faðmaði móður sína sem loksins sá hana spila landsleik með berum augum. Skjáskot og Getty

Ef hægt er að tala um goðsagnir í fótbolta þá hlýtur hin brasilíska Formiga að vera ein sú mesta. Hún hefur nú lagt landsliðsskóna á hilluna en flughrædd móðir hennar, sem aldrei hafði séð dóttur sína í landsleik, náði að telja í sig kjark til að sjá kveðjuleikinn.

Formiga, sem er 43 ára gömul, hefur leikið á sjö Ólympíuleikum og sjö heimsmeistaramótum. Hafa ber í huga að þessi stórmót fara bara fram á fjögurra ára fresti en landsliðsferill Formiga, sem er 43 ára gömul, hófst árið 1995. Það hefur því ekki verið keppt í fótbolta kvenna á Ólympíuleikum án þess að Formiga sé með.

Formiga endaði á að spila 234 landsleiki fyrir Brasilíu. Síðasti leikurinn var í gær þegar hún kom inn á í 15 mínútur í 6-1 stórsigri gegn Indlandi í Manaus, í miðjum Amasónfrumskóginum í Brasilíu.

Lokaleikurinn var jafnframt fyrsti landsleikurinn sem að móðir Formigu sá hana spila með berum augum. Það var eflaust tilfinningaþrungin stund enda var stutt í tárin þegar mæðgurnar hittust á hóteli brasilíska liðsins, eins og sjá má:

Formiga hefur unnið tvenn silfurverðlaun á Ólympíuleikum, og silfur og brons á HM, auk þess að vinna Copa América sex sinnum.

Formiga er ein af leikjahæstu landsliðskonum sögunnar en hún á þó ekki metið yfir flesta leiki. Það er í eigu hinnar bandarísku Kristine Lilly sem lék alls 354 A-landsleiki á sínum ferli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×