Enski boltinn

Enginn leikmaður Liverpool fljótari en Salah í 100 úrvalsdeildarmörk

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Mohamed Salah hefur verið duglegur við að skora mörk síðan hann gekk í raðir Liverpool.
Mohamed Salah hefur verið duglegur við að skora mörk síðan hann gekk í raðir Liverpool. AP photo/Rui Vieira

Mohamed Salah varð í dag fljótasti leikmaður í sögu Liverpool til að skora 100 úrvalsdeildarmörk þegar hann skoraði annað mark liðsins í 3-3 jafntefli gegn Brentford.

Frá því að enska úrvalsdeildin var stofnuð árið 1992 hefur engum leikmanni Liverpool tekist að skora hundrað mörk fyrir félagið í færri leikjum, en það tók Salah einungis 151 leik að skora mörkin hundrað fyrir félagið. Hann gekk í raðir Liverpool árið 2017 frá Roma. 

Fyrr í mánuðinum skoraði Salah sitt hundraðasta úrvalsdeildarmark á ferlinum, en hann skoraði tvö mörk í deildinni fyrir Chelsea þegar hann lék með Lundúnaliðinu fyrir um sjö árum.

Egyptinn er 30. leikmaðurinn til að skora 100 úrvalsdeildarmörk eða meira, og hann er einnig aðeins annar leikmaðurinn frá Afríkulandi til að ná þessum merka áfanga. Sá sem var fyrstur til þess var fyrrum samherji hans hjá Chelsea, Didier Drogba.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×