Stórleikur á Meistaravöllum í kvöld

Höskuldur Gunnlaugsson og Theódór Elmar Bjarnason eigast við í leik …
Höskuldur Gunnlaugsson og Theódór Elmar Bjarnason eigast við í leik KR og Breiðabliks á síðustu leiktíð mbl.is/Óttar Geirsson

KR tekur á móti Breiðablik í fjórðu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld. Fjórir leikir eru á dagskrá í dag.

ÍA tekur á móti FH í Akraneshöllinni klukkan 14:00. Skagamenn eru með sex stig í 2. sæti deildarinnar eftir stórsigra gegn Fylki og HK í síðustu tveimur leikjum. Rúnar Már Sigurjónsson spilaði sinn fyrsta leik fyrir félagið þegar hann kom inn á sem varamaður í bikarsigri á Tindastól í vikunni. FH er einnig með sex stig.

Rúnar Már Sigurjónsson gæti spilað sinn fyrsta deildarleik fyrir ÍA …
Rúnar Már Sigurjónsson gæti spilað sinn fyrsta deildarleik fyrir ÍA í dag AFP

Á sama leikur Vestri sinn fyrsta „heimaleik“ í efstu deild á þessari öld þegar HK kemur í heimsókn á Þróttarvöll í Laugardalnum. Heimavöllur Vestra er ekki leikhæfur ennþá og enginn nothæfur völlur er á Vestfjörðum. Vestri vann KA á Akureyri í síðustu umferð en HK er einungis með eitt stig eftir þrjá leiki, jafntefli á móti KA í fyrstu umferð.

Íslandsmeistarar Víkings taka á móti KA í Víkinni klukkan 16:15. Víkingar eru með fullt hús en KA menn eru enn að leita að sínum fyrsta sigri. KA er einungis með 1 stig og deilir botnsætinu með Fylki og HK. Víkingar hrukku í gang eftir líflausar frammistöður í fyrstu tveimur umferðunum og skelltu Breiðablik 4:1 í síðustu umferð. KA hefur valdið vonbrigðum og naumur sigur á 1. deildarliði ÍR í bikarnum í vikunni létti ekki pressunni af liðinu.

Fatai Gbadamosi átti góðan leik gegn KA
Fatai Gbadamosi átti góðan leik gegn KA Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Stórleikur dagsins hefst á Meistaravöllum í Vesturbænum þegar Breiðablik heimsækir KR. Bæði lið töpuðu í síðustu umferð og Blikar féllu úr bikarnum í vikunni eftir tap gegn 1. deildarliði Keflavíkur. Þetta er fyrsti leikur deildarinnar í ár sem fram fer á náttúrugrasi og verður áhugavert að sjá hvernig völlurinn kemur undan vetri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert