Segir Brexit-viðræðum lokið

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta.
Boris Johnson, forsætisráðherra Breta. AFP

Talsmaður breska forsætisráðuneytisins greindi frá því nú fyrir stundu að fríverslunarviðræðum Breta og Evrópusambandsins væri lokið. Sagði í yfirlýsingu Breta að það væri enginn tilgangur með frekari viðræðum í næstu viku nema Evrópusambandið væri reiðubúið til þess að ræða lagaleg atriði samkomulagsins í smáatriðum. 

Boris Johnson forsætisráðherra sagði fyrr í dag að Bretar yrðu að búa sig undir að undanþágutíma þeirra myndi ljúka um næstu áramót án ný fríverslunarsamkomulags. Í frétt BBC um málið segir að forsvarsmenn Evrópusambandsins hafi lýst sig reiðubúna í nánari viðræður, en að þeir myndu ekki gera samkomulag á hvaða kostum sem er. 

Gert var ráð fyrir að Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins myndi fara til Lundúna nú á mánudaginn, en í yfirlýsingu Breta sagði að það yrði tímasóun fyrir Barnier nema ESB skipti um stefnu í viðræðunum. „Viðræðunum er lokið. ESB hefur slitið þeim í raun með því að lýsa yfir að það vilji ekki breyta samningsafstöðu sinni,“ sagði talsmaður Johnsons á blaðamannafundi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert