Xavi biðst afsökunar á ummælum sínum

Xavi Hernández, knattspyrnustjóri Barcelona.
Xavi Hernández, knattspyrnustjóri Barcelona. AFP/Josep Lago

Xavi Hernández, knattspyrnustjóri Barcelona, hefur beðist afsökunar á ummælum sínum um Dani Alves, sem var á föstudag handtekinn vegna gruns um kynferðisbrot.

Samkvæmt AFP er Alves gefið að sök að hafa nauðgað konu á skemmtistað í Barcelona aðfaranótt 31. desember.

Í gær lét Xavi hafa eftir sér að hann væri í sjokki yfir fréttunum og að hann kenndi í brjósti um Alves, án þess að minnast orði á meint fórnarlamb.

„Það sem ég vildi sagt hafa í gær var rangtúlkað. Kannski kvað ég ekki nógu fast að orði og það er miklvægt að ég útskýri hvað ég átti við.

Þetta eru með öllu hræðileg mál og í gær láðist mér að minnast á fórnarlömbin. Þetta voru ekki viðeigandi ummæli. Fordæma skal allar gjörðir af þessu tagi, hvort sem Dani eða einhver annar gerði þetta.

Ég bið fórnarlambið afsökunar og fórnarlömb kynferðisbrota og annarra brota af þessu tagi sömuleiðis,“ sagði Xavi á blaðamannafundi eftir 1:0-sigur Barcelona á Getafe í spænsku 1. deildinni í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert