„Mjög ánægður að vera með mark og stoðsendingu“

Leikmenn FH fagna dramatísku sigurmarki liðsins í kvöld.
Leikmenn FH fagna dramatísku sigurmarki liðsins í kvöld. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

FH-ingar heimsóttu Vestmannaeyjar í dag þar sem þeir spiluðu við ÍBV í Bestu deild karla í knattspyrnu. Leikurinn var kaflaskiptur en hádramatískur undir lokin. Lauk honum með 3:2-sigri FH-inga þar sem sigurmarkið kom í uppbótartíma.

Gyrðir Hrafn var í fyrsta skipti í byrjunarliði FH-inga á tímabilinu og skilaði virkilega góðri vakt með marki og stoðsendingu. Eins og oft vill verða vildi hann þó helst tala um sigurinn og liðið sitt.

„Við erum virkilega sáttir að hafa náð í þessi þrjú stig. Þetta er erfiður útivöllur að koma á og sækja þrjú stig. Eyjamenn eru virkilega sterkir, beinskeyttir. Þannig að við vorum bara mjög ánægðir.

„Mér leið mjög vel inni á vellinum og við erum að fá á okkur frekar klaufaleg mörk, en skorum þrjú hérna á erfiðum útivelli,“ sagði Gyrðir Hrafn í samtali við mbl.is eftir leik.

Fyrri hálfleikur var mjög bragðdaufur af hálfu beggja liða en í þeim síðari var meira um að vera. FH-ingar komust yfir og Eyjamenn jöfnuðu áður en þeir misstu mann af velli. FH-ingar stálu að endingu sigrinum í uppbótartíma.

„Við vissum að við gætum spilað betur. Við vorum svolítið ragir í fyrri hálfleik og í seinni hálfleik létum við boltann ganga betur milli manna. Heimir sagði okkur að þora meira og við sýndum það í seinni hálfleik að við gátum látið boltann ganga mun hraðar á milli leikmanna. En svo er þetta auðvitað á erfiðum útivelli og þá bakkar maður stundum þegar maður er yfir og sækir á færri mönnum,“ sagði Gyrðir Hrafn.

Mikið hefur verið fjallað um ástandið á Hásteinsvelli en FH-ingar hafa þegar spilað á erfiðu grasi það sem af er sumri. Gyrðir Hrafn taldi ekki að FH-ingar hafi pælt mikið í aðstæðunum fyrir leikinn í kvöld, sem voru krefjandi.

„Nei, svo sem ekki. Þeir eru með virkilega hraða leikmenn fram á við svo við ákváðum aðeins að breyta til í leikplaninu en áherslurnar okkar voru ekkert að breytast,“ sagði hann, aðspurður um leikplan FH-inga fyrir útileik á Hásteinsvelli.

Eins og áður sagði skoraði Gyrðir Hrafn mark og átti stoðsendinguna í öðru marki gestanna, en þetta var fyrsti leikurinn hans í byrjunarliði FH-inga á tímabilinu. Blaðamaður spurði Gyrði Hrafn hvort hann yrði ekki fastamaður í byrjunarliði Hafnfirðinganna héðan af, en uppskar lítið meira en glott og heilsteypt svar frá miðjumanninum unga.

„Ég er mjög ánægður að vera með mark og stoðsendingu. Það er mikil samkeppni í liðinu sem ég er ánægður með. Við hugsum bara um næsta leik og þrjú stig,“ sagði Gyrðir Hrafn, miðjumaður FH-inga að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert