Gengi íslensku krónunnar hefur styrkst um rétt rúmlega 1% gagnvart evru, um 1,42% gagvart Bandaríkjadal og um 1,31% gagnvart breska pundinu það sem af er degi.

Styrkingin kemur til viðbótar við 1% styrkingu krónunnar gagnvart evru síðastliðinn föstudag. Heilt yfir hefur gengi krónunnar þó veikst það sem af er ári. Gengi krónunnar gagnvart evru hefur veikst um 2,38% frá áramótum, um 0,68 gagnvart Bandaríkjadal og 3,41% gagnvart breska pundinu.

Í morgun var greint frá því að verðbólga hafi aukist um 0,3 prósentustig á milli desember og janúar og mælist nú 9,9%.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti um samtals 4,0 prósentur í fyrra, síðast með 0,25 prósentu hækkun í lok nóvember. Stýrivextir standa nú í 6,0%. Næsta boðaða vaxtaákvörðun Seðlabankans er á miðvikudaginn í næstu viku, 8. febrúar.