Danir fóru illa með Ungverja

Simon Pytlick brýst í gegnum vörn Ungverja í leiknum í …
Simon Pytlick brýst í gegnum vörn Ungverja í leiknum í dag. AFP/Jonathan Nackstrand

Danir unnu afar auðveldan sigur á Ungverjum í átta liða úrslitum heimsmeistaramóts karla í handknattleik í Stokkhólmi í dag, 40:23.

Danska liðið náði strax undirtökunum og á lokakafla fyrri hálfleiks stakk það Ungverjana af og var með níu marka forystu í hálfleik, 21:12.

Danir gáfu ekkert eftir og þegar  tíu mínútur voru búnar af síðari hálfleik voru úrslitin endanlega ráðin en þá var staðan orðin 31:16, fimmtán marka munur og enn 20 mínútur eftir af leiknum.  Munurinn jókst á ný undir lokin og Danir skoruðu fertugasta markið á lokamínútunni.

Mathias Gidsel skoraði níu mörk fyrir Dani, Simon Pytlick átta, og þeir Niclas Vest Kirkelokke og Emil Jakobsen fimm mörk hvor. 

Richard Bodó og Máté Lékai skoruðu sex mörk hvor fyrir Ungverja.

Danir mæta annaðhvort Spánverjum eða Norðmönnum í undanúrslitum en viðureign þeirra hefst í Gdansk klukkan 19.30. Ungverjar fara í keppni um fimmta til áttunda sætið.

Leikur Norðmanna og Spánverja var framlengdur en þar var staðan 25:25 eftir venjulegan leiktíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka