Luc Abalo mætti París SG

Luc Abalo í búningi Elverum.
Luc Abalo í búningi Elverum. AFP

Franski landsliðsmaðurinn, Luc Abalo, mætti París St. Germain í Meistaradeildinni í handknattleik í kvöld en Abalo gekk óvænt í raðir norska liðsins Elverum í sumar. 

Abalo skoraði fjögur mörk í leiknum sem fram fór í París en Parísarliðið vann 39:29. Daninn Mikkel Hansen skoraði átta mörk fyrir frönsku meistarana. París SG hefur farið rólega af stað og var þetta fyrsti sigur liðsins í keppninni eftir að hafa tapað fyrstu tveimur leikjunum. 

Stefán Rafn Sigurmannsson lék ekki með Pick Szeged sem tapaði fyrir Porto í Portúgal 25:19.

Vardar sýndi styrk sinn og vann Flensburg í Makedóníu 31:26. Var þetta fyrsta tap Flensburg í keppninni þetta haustið. 

Leikirnir þrír voru allir í A-riðli keppninnar og eru Íslendingaliðið Kielce og Flensburg efst með 6 stig eftir fjóra leiki.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert