Karl Bretaprins hélt drottningarávarpið

Karl bretaprins bar ekki kórónu móður sinnar þegar hann flutti …
Karl bretaprins bar ekki kórónu móður sinnar þegar hann flutti ávarpið, en kórónan hvíldi við hlið hans. AFP

Karl Bretaprins flutti í dag svokallað drottningarávarp á opnunarathöfn breska þingsins, fyrir hönd móður sinnar Elísabetar II, Bretlandsdrottningu.

Hefð er fyrir því að drottningin kynni stefnu ríkisstjórnarinnar fyrir komandi þingár, í ávarpi sínu.

Samkvæmt BBC er þetta stærsta embættisverkið sem Elísabet II hefur þurft að eftirláta arftaka sínum, en hún forfallaðist, að læknisráði, sökum þess að hún glímir við skerta hreyfigetu um þessar mundir.

Styrkja efnahag og létta undir með heimilum

Karl bar ekki kórónu við athöfnina og sat ekki í hásætinu þar sem Elísabet er vön að sitja. Hann sagði að áherslur ríkisstjórnarinnar yrðu fyrst og fremst að styrkja efnahagskerfið í landinu og létta undir með heimilunum.

Unnið verður að því að kjarnorkuvæða orkuframleiðslu, þannig að tuttugu og fimm prósent af rafmagni verði framleitt úr kjarnorku.

Önnur mál sem hann nefndi voru þau að aukinn kraftur yrði settur í að afnema reglur Evrópusambandsins og setja á ný lög um allsherjarreglu, sem gerir stjórnvöldum kleift að kveða niður mótmæli í undantekningartilfellum.  

Þá kynnti hann stefnu ríkisstjórnarinnar um að koma á sérstakri stofnun sem sérhæfir sig í almenningssamgöngum, bæta regluverkið í kringum rafræna miðlun og framsetningu upplýsinga. Ríkisstjórnin ætlar sér einnig að færa skólayfirvöldum auknar heimildir til þess að halda utan um mætingu nemenda.

Þetta er stærsta embættisverk sem Karl hefur sinnt fyrir hönd …
Þetta er stærsta embættisverk sem Karl hefur sinnt fyrir hönd Elísabetar. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert