Nauðgunardómur mildaður

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hallur Már

Landsréttur mildaði í dag dóm sem karlmaður að nafni Mahdi Soussi hlaut í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrra fyrir nauðgun. Upprunalega var maðurinn dæmdur í þriggja ára fangelsi og gert að greiða þolanda brotsins tvær milljónir í miskabætur.

Landsréttur kvað upp dóm í dag um að hæfilega ákveðin fangelsisvist fyrir Soussi væru tvö ár og að miskabæturnar yrðu 1,8 milljónir. 

Mahdi Soussi var dæmdur fyrir að hafa nauðgað mjög drukkinni konu inni á baðherbergi skemmtistaðar, þar sem hann var starfsmaður. Í upprunalega dómnum var frásögn þolandans talin trúverðug og samkvæm sjálfri sér, en það sama var ekki að segja um frasögn gerandans.

Soussi var í dómi héraðsdóms talinn hafa læst hurðinni á eftir sér inni á baðherbergisbásnum þegar brotið var framið og sömuleiðis var mar á læri þolanda talið til marks um að samræðið hefði verið án samþykkis. Landsréttur féllst hins vegar ekki á þetta tvennt og taldi ósannað. Annað í frásögninni stemmdi hins vegar.

Þvingaði þolanda til samræðis

Atvikið átti sér stað aðfaranótt sunnudags 16. desember 2018 á kvennasalerni á skemmtistað í Reykjavík. Í dómi héraðsdóms er Soussi sagður hafa komið á eftir þolanda inn á salernisbás, læst hurðinni, tekið um mitti hennar, snúið henni við og þvingað hana til samræðis og endaþarmsmaka. Hann hafi um leið notfært sér að þolandi gat ekki spornað við verknaðinum sökum mikilla áhrifa áfengis.

Soussi bar því við fyrir dómi að brotaþoli hafi sýnt honum áhuga inni á staðnum fyrr um kvöldið. Hann hafi verið að þrífa salernið rétt fyrir lokun og að þá hafi hann séð konuna á leið inn á baðherbergi með öðrum karli, og að hann hafi talið að hún vildi ekki vera þar. Því hafi hann sjálfur skorist í leikinn og fylgt henni inn á salernið. 

Stuttu síðar hafi hún viljað þakka honum fyrir hjálpina og byrjað að kyssa hann. Í kjölfarið á hún að hafa haft frumkvæði að kynferðismökum inni á salerninu en að hann hafi látið af þeim fljótlega eftir að þau hófust, enda hafi þau „bæði tekist og ekki tekist“ eins og hann tók til orða í skýrslutöku. Málflutningur hans var ekki talinn trúverðugur.




mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka