Óheimilt að framkvæma leit vegna graslyktar

Viðskiptavinur kaupir gras í New York í vikunni. Það má …
Viðskiptavinur kaupir gras í New York í vikunni. Það má nú. AFP

Lykt af marijúana, hvort heldur brenndu eða óbrenndu, er ekki lengur næg réttlæting fyrir lögreglumenn í New York til að óska eftir því að framkvæma leit í bílum fólks. Þetta kemur fram í nýju minnisblaði lögreglunnar í borginni, en kannabis var lögleitt í New York-ríki um mánaðamótin.

Samkvæmt reglunum má því aðeins stöðva ökutæki ef útlit er fyrir að ökumaðurinn sé undir áhrifum kannabiss og ástæða til að ætla að hann hafi verið að reykja það.

Enn fremur er lögreglu ekki heimilt að kæra menn fyrir sölu á marijúana þótt þeir verði vitni að fólki skiptast á efninu svo fremi sem magnið er innan við þrjár únsur (85 grömm) og engir peningar í spilunum.

New York er fjórtánda ríki Bandaríkjanna sem lögleiðir kannabissefni til almennra nota, en nokkur til viðbótar heimila notkun efnisins í lækningaskyni. Andrew Cuomo ríkisstjóri væntir þess að skatttekjur ríkisins muni aukast um allt að 350 milljónir dala (44 ma.kr.) á ári vegna breytingarinnar og að tugir þúsunda starfa skapist.

Samkvæmt lögunum mega einstaklingar sem náð hafa 21 árs aldri kaupa og rækta kannabis til einkanota heima hjá sér. Brot vegna notkunar eða vörslu kannabisefna sem þegar eru á sakaskrá verða enn fremur afmáð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert