Fótbolti

Bayern liðið tapar alltaf fyrir framtíðar meisturunum í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Manuel Neuer nær ekki að stoppa Sadio Mane hjá Liverpool í sigri Liverpool á Bayern í fyrra.
Manuel Neuer nær ekki að stoppa Sadio Mane hjá Liverpool í sigri Liverpool á Bayern í fyrra. Getty/Lars Baron

Barcelona tryggir sér ekki aðeins sæti í undanúrslitum Meistaradeildarinnar takist liðinu að vinna Bayern München í átta liða úrslitum keppninnar í kvöld því sagan væri þá líka með spænska stórliðinu.

Leikur Barcelona og Bayern München er án efa stórleikur átta liða úrslitanna enda tvö frábær lið sem hafa alla burði til að fara alla leið og vinna Meistaradeildina í ár.

Bæði hafa líka þurft að bíða aðeins eftir því að vinna Meistaradeildina, Barcelona frá árinu 2015 en Bayern München frá 2013, þrátt fyrir að vera með mjög öflug lið flest árin.

Það er hins vegar ein staðreynd sem vekur athygli varðandi gengi Bayern München í útsláttarkeppni Meistaradeildarinnar undanfarin ár eins og sjá má hér fyrir neðan.

Það lið sem hefur slegið út Bayern München undanfarin þrjú tímabil hefur farið alla leið og unnið Meistaradeildina. Það gerði Liverpool í sextán liða úrslitunum -í fyrra og það gerði einnig Real Madrid bæði 2017 og 2018.

Síðasta lið til að vinna Meistaradeildina án þess að slá út Bayern München var lið Real Madrid tímabilið 2015-16. Bayern datt þá út á móti nágrönnum Real í Atlético Madrid í undanúrslitunum.

Þegar Barcelona vann Meistaradeildina síðast vorið 2015 þá sló Barcelona einmitt lið Bayern München út í undanúrslitunum, 5-3 samanlagt.

Real Madrid sló líka Bayern München út í undanúrslitunum vorið 2014 og fór svo og vann titilinn.

Þetta þýðir á síðustu sex Meistaradeildartímabilum, eða síðan að Bayern liðið vann Meistaradeildina síðast, hafa fimm lið, sem hafa slegið út Bayern, farið alla leið og fagnað sigri í Meistaradeildinni eða Liverpool (2019), Real Madrid (2014, 2017, 2918) og Barcelona (2015).

Leikur Bayern München og Barcelona hefst 19.00 klukkan í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport 2. Upphitun fyrir leikinn hefst klukkan 18.30 á Stöð 2 Sport 2 og leikurinn verður gerður upp strax á eftir á sömu stöð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×