Athugið að þessi frétt er meira en 8 mánaða gömul

Samantekt

Sjáðu mörkin: 15 ára með tvö og var Adam Ægir að reyna þetta?

Jóhann Páll Ástvaldsson

,
17. maí 2024 kl. 22:27

Viðtöl við Magnús og Arnar

Magnús Már Einarsson og Arnar Grétarsson mættu í viðtöl eftir sigur Vals gegn Aftureldingu.

Arnar vill helsta forðast tvöfalda meistara Víkings en Magnús Már gengur stoltur frá leiknum.

Þessi lið eru í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslit

  • KA
  • Þór
  • Keflavík
  • Fylkir
  • Víkingur
  • Stjarnan
  • Fram
  • Valur

Öll mörkin og viðtölin úr leikjum kvöldsins má finna hér að neðan og á X (áður Twitter) síðu RÚV.

17. maí 2024 kl. 21:49 – uppfært

Viðtöl úr leik Fram og ÍH

Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson var á svæðinu þegar Fram vann öruggan sigur á ÍH, 3-0. Hann ræddi við Jón Pál Pálmason, þjálfara þriðju deildar liðs ÍH, í áhugaverðu viðtali. „Við komum til að sjá og sigra,“ sagði Jón Páll.

Rúnar Kristinsson opinberaði að fyrirliðinn Kennie Chopart verður frá næstu vikurnar. Þá var 15 ára gamli markaskorarinn Viktor Bjarki Daðason einnig mættur í viðtal.

17. maí 2024 kl. 21:48 – uppfært

Umfjöllun Valsmenn unnu öruggan sigur

Valsmenn komust yfir snemma leiks með marki frá Jónatani Inga Jónassyni. Birkir Már Sævarsson átti þá hörkusprett upp hægri vænginn og lagði boltann út í teig. Jónatan átti bylmingsskot sem fór í varnarmann og inn.

Aftureldingarliðið er virkilega vel spilandi og sýndi það og sannaði eftir Valsmarkið. Þeir tóku öll völd á vellinum og færðu boltanum fram og til, upp og niður. Fyrsta viðvörunarbjallan klingdi þegar Georg Bjarnason átti lausan skalla sem Frederik Schram greip.

Birkir Már Sævarsson
RÚV / Mummi Lú

Jöfnunarmarkið kom svo á 21. mínútu. Hrannar Snær Magnússon lék á Orra Svein. Hann átti stutta sendingu á Andra Frey Jónasson sem var ekki í vandræðum með að koma boltanum í netið af stuttu færi.

Aftureldingar hafa leikið virkilega vel en Valsmenn sýndu þarna hve hættulegir þeir geta verið. Eftir ágætis samspil vinstra megin átti Jónatan Ingi fyrirgjöf sem Patrick Pedersen skallaði í slá.

Beint í næstu sókn eftir á sendi Birkir Már sendingu aftur út í teiginn. Þar var Aron Jóhannsson sem skaut í varnarmann. Boltinn barst aftur til hans og Aron tók þrumuskot sem endaði í markinu.

Afturelding vildi fá rautt spjald á Hólmar Örn Eyjólfsson sem togaði Elmar Cogic niður. Þeir töldu Hólmar Örn vera aftasta varnarmanninn. Dómarateymið gaf gult spjald á fyrirliða Valsmanna.

Adam Ægir Pálsson
RÚV / Mummi Lú

Í upphafi seinni hálfleiks færðist ró yfir leikinn. Það dró helst til tíðinda þegar fyrirgjöf, nú eða skot Adams Ægis Pálssonar, endaði í markinu. Aftureldingarmenn eyddu mikilli orku til að minnka muninn en allt kom fyrir ekki.

Valsmenn eru því í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslit. Öll mörkin má sjá hér að neðan.

17. maí 2024 kl. 21:19

Oliver Bjerrum með skot

Þarna fengu heimamenn hálfffæri. Oliver Bjerrum fékk boltann utarlega í teignum en skot hans fór yfir markið. Þrjár mínútur eru eftir af venjulegum leiktíma.

17. maí 2024 kl. 21:18

Fimm mínútur eftir

Fátt markvert hefur gerst síðustu mínútur. Aftureldingarmenn eru þó að rembast eins og rjúpan við staurinn til að komast aftur inn í þennan leik.

Valsmenn hafa gert það sem þarf til, allavega hingað til. Þeir hafa ekki spilað neinn glimrandi fótbolta en tvö upphlaup hjá Birki Má auk skotsins/fyrigjafarinnar frá Adami Ægi gætu reynst nóg.

17. maí 2024 kl. 21:08 – uppfært

Viktor með sitt annað mark undir lokin

Viktor Daði skoraði sitt annað mark og þriðja mark Framara með góðum skalla. Þessi sextán ára drengur er á leið til FCK í Danmörku og engan skyldi undra.

Þetta var það síðasta sem gerðist í þessum leik því Helgi Mikael hefur flautað til leiksloka.

Framarar eru því í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslit.

Það mun koma í ljós innan skamms hvort það verður Valur eða Afturelding sem verður síðasta liðið til að tryggja sæti sitt í átta liða úrslitum. Valur leiðir 3-1 þegar fimmtán mínútur eru eftir.

17. maí 2024 kl. 20:58 – uppfært

Adam Ægir með skrautlegt mark

Adam Ægir Pálsson skorar hér þriðja mark Valsmanna. Hann fékk boltann upp við teiginn vinstra megin og átti fyrirgjöf sem fór beint í markið. Boltinn skrúfaðist upp og yfir Arnar Daða í markinu.

Var hann að reyna þetta? Adam Ægir mun alltaf halda því fram, en það var eitthvað við það hvernig hann beitti sér sem var ansi fyrirgjafarlegt.

17. maí 2024 kl. 20:55 – uppfært

Ró færist yfir

Staðan er enn 2-0 fyrir Fram og 2-1 fyrir Val. Aftureldingar reynir enn að byggja upp sínar sóknir með spili. Bjarna Mark var skipt út af en hafði nælt sér í gult spjald og var orðinn tæpur á að fá sitt annað. Lúkas Logi kom inn á í hans stað. Skömmu síðar kom Tryggvi Hrafn Haraldsson inn fyrir Patrick Pedersen.

Birkir Már fékk einnig gult spjald.

62 mínútur eru liðnar í Mosfellsbæ og 80 mínútur í Úlfarsárdal.

17. maí 2024 kl. 20:42

Seinni farinn af stað

Seinni hálfleikurinn er farinn af stað í Mosfellsbæ.

Brynjar Ásgeir Guðmundsson komst nærri því að minnka muninn fyrir ÍH menn. Fram gerir breytingu á sínu liði inn. Inn komu Tiago og Alex Freyr Elísson í stað Fred og Haralds Einars.

Klukkan sýnir 66 mínútur liðnar. Er eitthvað líf í þriðju deildar liðinu? Sjáum við ótrúlega endurkomu?

17. maí 2024 kl. 20:23 – uppfært

Már tvöfaldar forystu Fram

Már Ægisson er búinn að tvöfalda forystu Framara á 48. mínútu. Ekki byrjunin á seinni hálfleiknum sem ÍH menn höfðu óskað sér.

17. maí 2024 kl. 20:21 – uppfært

Seinni farinn af stað hjá Fram og ÍH

Búið er að flauta seinni hálfleikinn af stað í leik Fram og ÍH. Fram skipta Agli Otta Vilhjálmssyni út af fyrir Frey Sigurðsson.

Brynjar Jónsson fékk gult spjald fyrir hörku tæklingu. Tvíburabróðir hans Andri leikur einnig með ÍH og hefur einnig nælt sér í gult spjald.

Búið er að flauta til hálfleiks í Mosfellsbæ. Þar leiða Valsarar 1-2.

Orri Sigurður sagði í hálfleik að hann væri ósáttur með leik Valsmanna.

"Það eru alltaf mörg mörk í Mosó," sagði fyrirliðinn Aron Elí. Birkir már leiðir í bræðrabardaganum en hann er kominn með tvær stoðsendingar. Aron Elí hefur verið fyrirferðamikill í spilköflum Aftureldingar.

17. maí 2024 kl. 20:12

Hálfleikur í Úlfarsárdal

Búið er að flauta til hálfleiks í leik ÍH og Fram. Staðan er 1-0 og hinn sextán ára gamli Viktor Bjarki hefur verið hættulegasti maður vallarins.

Afturelding vildi fá rautt spjald á Hólmar Örn Eyjólfsson sem togaði Elmar Cogic niður. Dómarateymið gaf gult spjald á fyrirliða Valsmanna.

17. maí 2024 kl. 20:07 – uppfært

Valsmenn komnir yfir

Aftureldingar hafa leikið virkilega vel en Valsmenn sýndu þarna hve hættulegir þeir geta verið. Eftir ágætis samspil vinstra megin átti Jónatan Ingi fyrirgjöf sem Patrick Pedersen skallaði í slá.

Beint í næstu sókn eftir á sendi Birkir Már sendingu aftur út í teiginn. Þar var Aron Jóhannsson sem skaut í varnarmann. Boltinn barst aftur til hans og Aron tók þrumuskot sem endaði í markinu.

17. maí 2024 kl. 19:56 – uppfært

Afturelding jafnar

Hrannar leikur á Orra inni í vítateig og á fyrirgjöf á Andra Frey sem kemur boltanum í markið af stuttu færi. Eftir 21. mínútna leik er staðan því jöfn. Aftureldingarmenn hafa hreinlega verið betri frá því að Valsmenn komust yfir.

Þeir eru búnir að halda boltanum vel og uppskáru fyrsta alvöru færi sitt í leiknum.

17. maí 2024 kl. 19:52

Afturelding vaknar til lífs

Aftureldingarmenn eru farnir að sýna hvað í þeim býr. Eftir flottan spilkafla fengu þeir hornspyrnu. Frederik Schram var vandanum vaxinn en skalli Georgs Bjarnasonar rataði beint í hendur hans.

17. maí 2024 kl. 19:42 – uppfært

Valsmenn leiða

Valsmenn eru komnir yfir eftir átta mínútur í Mosfellsbæ. Birkir Már Sævarsson braust upp hægra megin og átti fyrirgjöf sem barst til Jónatans Inga. Hann náði firnaföstu skoti sem fór í varnarmann Aftureldingar og inn.

17. maí 2024 kl. 19:39 – uppfært

Viktor Bjarki kemur Fram yfir

Fram er búið að brjóta ísinn. Ungstirnið Viktor Bjarki Daðason kemur þeim yfir á 23. mínútu leiksins eftir stoðsendingu Haralds Einars.

Góð byrjun hjá gestunum en Bestu deildar liðið leiðir.

Aftureldingarmenn hafa verið sprækir í upphafi leiks í Mosfellsbæ.

17. maí 2024 kl. 19:37

Leikur hafinn í Mosfellsbæ

Leikurinn hefur verið flautaður á. Sólin skín og aðstæður eru með besta móti. Aftureldingarmenn spila út frá marki og Valsmenn pressa stíft.

ÍH menn áttu hættulega fyrirgjöf og sóknarmaður þeirra togaður niður. Hafnfirðingarnir vildu víti en dómarinn var á öðru máli. Staðan er enn 0-0 eftir 21 mínútu.

17. maí 2024 kl. 19:28 – uppfært

Við erum farin í loftið

Útsendingin á RÚV2 er farin af stað. Jóhannes Karl Guðjónsson og Hörður Magnússon eru sérfræðingar en Hörður lýsir einnig. Kristjana Arnarsdóttir stýrir umræðum og Gunnar Birgisson tekur viðtöl í Mosfellsbæ.

Það er allt klárt fyrir þennan leik. Mosfellingar ætla að veita Valsmönnum skráveifu, það er ljóst. Þjálfararnir tveir mættu í viðtöl fyrir leik. Magnús Már segir sína menn ætla að spila eftir þeirra gildum fyrir framan troðfullri stúku af Mosfellingum

Arnar Grétarsson útskýrði fjarveru Gylfa Sigurðssonar og fór einnig yfir gæðin sem eru í Aftureldingarliðinu.

Staðan er markalaus í leik Fram gegn ÍH eftir þrettán mínútna leik. Gestirnir hafa ógnað ágætlega í upphafi og Fram eru að reyna að finna glufur á vörn þeirra.

17. maí 2024 kl. 19:13

Liðin ganga út á völl

Sólin skín á Úlfarsárdalinn og liðsmenn Fram og ÍH stíga út á völlinn. Mætingin hefur verið með besta móti hjá Fram í ár og stemningin mikil. Það er alveg óhætt að segja að áhorfendatalan hafi verið hærri í ár. En þeir sem eru mættir munu eflaust fá eitthvað fyrir peninginn.

17. maí 2024 kl. 19:08 – uppfært

Gylfi treystir á sína menn

Athygli vekur að Gylfi Þór Sigurðsson er ekki í leikmannahópi Vals í dag en hann hefur byrjaði alla sjö leiki sumarsins hingað til. Hann var örlítið tæpur gegn Breiðablik 6. maí en lék þó gegn Val fyrir sex dögum. Hann er frá vegna bakmeiðsla og fær því hvíld í dag.

Gylfi Þór Sigurðsson, Valur-ÍA í Bestu deildinni 7. apríl 2024.
RÚV / Mummi Lú

Gylfi hefur aldrei unnið titil á sínum langa ferli og vonar því að liðsfélagar hans komi Val í átta liða úrslit. Þrátt fyrir að Gylfi hafi afrekað mikið á sínum ferli hlýtur það að kitla aðeins að lyfta bikarnum á Laugardalsvelli.

17. maí 2024 kl. 19:00

ÍH menn spila í FH treyjum

ÍH menn mæta til leiks í FH treyjum ef marka má myndir frá vellinum. Þjálfarinn Jón Páll hafði hótað því fyrr í dag.

Aðalbúningar liðsins eru venjulega svona:

Peysa: Ljósblá / Buxur: Hvítar / Sokkar: Hvítir

Varabúningar

Peysa: Hvít / Buxur: Svartar / Sokkar: Svartir

17. maí 2024 kl. 18:38

Birkir Már í byrjunarliðinu - bylta skal það verða!

Byrjunarliðin eru klár og Birkir Már er á sínum stað í hægri bakverðinum. Afturelding heldur sig við sama byrjunarlið frá því í síðasta leik. Þá mótti liðið þola 4-2 tap gegn Þórsurum sem hafa farið vel af stað í Lengjudeildinni, auk þess að vera komnir í átta liða úrslit bikarsins.

Birkir Már Sævarsson
RÚV / Mummi Lú

Adam Ægir og Kristinn Freyr koma inn í byrjunarlið Vals. Gylfi Þór Sigurðsson er ekki í hóp í kvöld.

Byrjunarlið Aftureldingar

Arnar Daði Jóhannesson (markvörður)
Gunnar Bergmann Sigmarsson
Aron Elí Sævarsson (fyrirliði)
Aron Jóhannsson
Aron Jónsson
Andri Freyr Jónasson
Bjartur Bjarmi Barkarson
Elmar Kári Enesson Cogic
Oliver Bjerrum Jensen
Georg Bjarnason
Hrannar Snær Magnússon

Adam Ægir Pálsson
RÚV / Mummi Lú

Byrjunarlið Vals

Frederik Schram (markvörður)
Birkir Már Sævarsson
Bjarni Mark Antonsson
Aron Jóhannsson
Jónatan Ingi Jónsson
Patrick Pedersen
Kristinn Freyr Sigurðsson
Hólmar Örn Eyjólfsson (fyrirliði)
Orri Sigurður Ómarsson
Jakob Franz Pálsson
Adam Ægir Pálsson

17. maí 2024 kl. 18:30

Heldur bikarævintýri ÍH áfram?

Byrjunarliðin eru klár í Úlfarsárdalnum þar sem Fram tekur á móti 3. deildarliði ÍH manna.

Rúnar Kristinsson er ekkert á þeim buxunum að bjóða upp á vanmat í kvöld. Byrjunarliðin eru klár og Bestu deildar liðið stillir upp nokkuð sterku liði. Þó fá Tiago og Alex Freyr Elísson hvíld auk þess sem Stefán Þór Hannesson fær tækifærið í markinu.

Leikmenn Fram í varnarvegg í leik gegn Vestra í Bestu-deild karla í fótbolta í apríl. Guðmundur Magnússon fyrirliði Fram er sá eini sem sést framan í.
RÚV / Mummi Lú

Guðmundur Magnússon er í framlínu Fram í kvöld.

ÍH er eins konar venslalið FH og er skipað ungum og uppöldum Hafnfirðingum. Jón Páll Pálmason þjálfar liðið en liðið er í 5. sæti 3. deildar eins og er. ÍH er eina liðið sem enn er í keppninni sem byrjaði í fyrstu umferð hennar.

Í valnum liggja Léttir, Ýmir og Hafnir. Nú fá þeir alvöru próf á gervigrasinu í miðjum Úlfarsárdalnum.

Fram vann FC Árbæ í 32 liða úrslitum en það lið er einnig í 3. deild. Þeir ættu því að vera nokkuð vanir að spila gegn svona liði. En það gæti allt gerst í kvöld.

17. maí 2024 kl. 18:22

Bræður munu berjast

Tveir leikir eru á dagskrá í kvöld. Afturelding mætir Val á gervigrasinu í Mosfellsbæ. Þar beinist athyglin að því að bræðurnir Aron Elí Sævarsson og Birkir Már Sævarsson gætu mæst. Aron er fyrirliði Aftureldingar og mun eflaust byrja leikinn en við bíðum í ofvæni eftir því hvort Birkir byrji.

Úr úrslitaleik um laust sæti í Bestu deild karla. Afturelding og Vestri mættust í úrslitaleik umspil Lengjudeildarinnar í fótbolta 30. september 2023.
Mummi Lú

Aron leikur alla jafnan í vinstri bakverði en leitar inn á miðjuna og stýrir spilinu í liði Magnúsar Más Einarssonar. Aftureldingarmenn urðu í öðru sæti Lengjudeildarinnar í fyrra. Öll önnur tímabil hefði það dugað til að leika í deild þeirra Bestu, en í fyrra var ákveðið að prófa úrslitakeppni. Afturelding tapaði þar í framlengingu gegn Vestra.

Gylfi Þór Sigurðsson, Valur-ÍA í Bestu deildinni 7. apríl 2024.
RÚV / Mummi Lú

Aftureldingarmenn hafa unnið Leikni og Dalvík 4-1 á leið sinni í 16 liða úrslitin. Valsmenn unnu hins vegar FH örugglega 3-0 í 32 liða úrslitum. Arnar Grétarsson og Valsmenn máttu þola tap gegn Lengjudeildarliði Grindavíkur í bikarnum í fyrra. Þeir vilja auðvitað koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig í kvöld.

Við munum færa ykkur helstu fregnir af vígstöðunum. Leikur Aftureldingar og Valsmanna hefst 19:30 en Fram - ÍH hefst 19:15.