Best að vinna og skora

Emil Atlason átti mjög góðan leik í kvöld og skoraði …
Emil Atlason átti mjög góðan leik í kvöld og skoraði fyrsta mark sitt á leiktímabilinu og jafnframt fyrsta mark Stjörnunnar í kvöld. mbl.is/Eyþór

„Það er alltaf gott að skora, en það er betra að vinna og best að vinna og skora,“ segir Emil Atlason, framherji Stjörnumanna, en hann skoraði sitt fyrsta mark í Bestu deildinni í ár á móti Skagamönnum í kvöld þegar hann jafnaði metin um miðbik fyrri hálfleiks.

Mark Emils kom á góðum tímapunkti fyrir Stjörnuna, sem lentu undir á móti Skagamönnum, en náðu að snúa leiknum sér í hag og vinna góðan 4:1 sigur.

Emil átti mjög góðan leik í kvöld, og var hann nokkrum sinnum nálægt því að bæta við marki. Hann segist þó ekki vera að stressa sig mikið á því. „Ég þarf ekki að skora þessi mörk, svo lengi sem við vinnum leikinn, þá er ég sáttur.“

Um leikinn sjálfan segir Emil að Stjarnan hafi náð að stjórna honum, þrátt fyrir að hafa lent undir. „Það var kannski svolítið klaufalegt af okkar hálfu að leyfa þeim að skora, en eftir það erum við með stjórnina,“ segir Emil og bætir við að þrátt fyrir að Skagamenn hafi fengið tvö mjög góð færi í seinni hálfleik, hafi Stjarnan í raun alltaf haft undirtökin í leiknum.

Aðspurður um hvort að umtal knattspyrnuspekinga út í bæ um Emil eftir fyrstu umferðirnar hafi haft einhver áhrif segist hann og liðið lítið hlusta á það sem menn úti í bæ segja. „Við erum aðallega að hugsa um okkur og reyna að ná dampi í okkar leik,“ segir Emil. Hann bætir við að sigurinn í kvöld hafi ekki síst verið ánægjulegur, þar sem liðið vann einnig í síðustu umferð og náði því að tengja saman sigra, en Stjarnan mætir næst Fram.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert