Vonandi nýtti ég tækifærið vel

Guðmundur Þórarinsson í baráttu við Kacper Kozlowski í leiknum í …
Guðmundur Þórarinsson í baráttu við Kacper Kozlowski í leiknum í dag. AFP

Guðmundur Þórarinsson átti stóran þátt í báðum mörkum íslenska landsliðsins í knattspyrnu í vináttulandsleiknum gegn Pólverjum í Poznan í dag en hann fékk tækifæri í stöðu vinstri bakvarðar eftir að hafa mest lítið fengið að spreyta sig með landsliðinu á undanförnum árum.

Þetta er búið að vera rosalega erfitt á köflum. Ég einhvern veginn ímyndaði mér alltaf að ég myndi fá að standa í svona viðtali eftir landsleik. Ég hélt einhvern veginn alltaf í drauminn. Úff, vá, ég er að fá létta gæsahúð hérna. Það var frábært að fá þetta tækifæri,“ sagði Guðmundur í viðtali sem Ómar Smárason hjá KSÍ tók við hann fyrir RÚV eftir leikinn í Poznan.

Guðmundur er 29 ára gamall og leikur með New York City í bandarísku MLS-deildinni en þetta var aðeins hans sjöundi A-landsleikur.

„Mér leið rosalega vel á vellinum. Mér fannst ég spila mjög vel. Þetta er búin að vera svo löng leið að þessu markmiði einhvern veginn hjá mér frá því ég man eftir mér. Fyrst og fremst var það frábær tilfinning að fá að stíga út í landsliðstreyjunni og spila góðan leik með liðinu. Það er bara erfitt að setja orð á hitt einhvern veginn. Það var bara frábært að fá þetta tækifæri og vonandi nýtti ég það vel,“ sagði Guðmundur Þórarinsson en viðtalið í heild má sjá hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert