Ráðleggur Íslendingum að ferðast ekki

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir ítrekar ráðleggingar sínar gegn nauðsynjalausum ferðalögum Íslendinga út í heim. Sem stendur eru öll lönd heims, nema Grænland, skilgreind sem áhættusvæði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og varar Þórólfur því við ferðalögum til þeirra svæða. Þetta kemur fram á vef Landlæknis og á vef Stjórnarráðsins.

Á því rúma ári sem kórónuveirufaraldurinn hefur geisað hafa um 130 milljónir smitast af veirunni og tæplega þrjár milljónir hafa látist vegna hennar. Innan Evrópu hafa um 900 þúsund manns látist. 

Þórólfur segir áhættumat sitt, sem hann segir að sé í takt við áhættumat Sóttvarnastofnunar Evrópu, kveða á um að nýgengi smita úti í heimi sé víða mjög mikið og mikil hætta sé á smiti af hinum ýmsu afbrigðum veirunnar, sér í lagi B.1.1.7.-afbrigðinu sem kennt er við Bretland. 

Tilkynning Þórólfs í heild sinni:

Á rúmlega einu ári heimsfaraldurs COVID-19 hafa yfir 130 milljónir manna sýkst af völdum SARS-CoV-2-veirunnar í meira en 200 löndum og dauðsföll eru tæplega 3 milljónir, þar af yfir 900 þúsund dauðsföll í Evrópu. Sóttvarnalæknir vill ítreka ráðleggingar gegn nauðsynjalausum ferðalögum íbúa Íslands til áhættusvæða vegna COVID-19. Öll lönd og svæði heims nema Grænland eru skilgreind af sóttvarnalækni sem áhættusvæði. Áhættumat sóttvarnalæknis er samhljóða áhættumati Sóttvarnastofnunar Evrópu. Í mörgum löndum Evrópu er smittíðni há eða mjög há með dreifingu á nýjum afbrigðum veirunnar (sérstaklega svokölluðu B.1.1.7-afbrigði, kennt við Bretland). Bólusetning er enn skammt á veg komin í mörgum ríkjum og því eru ýmsar ferðatakmarkanir í gildi sem og takmarkanir innanlands í flestum löndum sem oft breytast með skömmum fyrirvara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert