Eitruð tjörn flæðir yfir bakka í sína í Flórída

Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, flýgur yfir tjörnina eitruðu í Piney …
Ron DeSantis, ríkisstjóri Flórída, flýgur yfir tjörnina eitruðu í Piney Point. AFP

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir skammt frá borginni Tampa í Flórída í Bandaríkjunum eftir að stærðarinnar tjörn af eitruðu affallsvatni flæddi yfir bakka sína.

Rúmlega 300 heimili hafa verið rýmd vegna ástandsins en ríkisstjóri Flórída, Ron DeSantis, sagði í morgun að vatnið væri ekki geislavirkt heldur aðallega saltvatn sem læki frá affallsvatnsstöð í Piney Point, nærri Tampa. Forgangur hins opinbera væri að koma í veg fyrir heljarinnar umhverfistjón, sagði DeSantis við fjölmiðla vestra. BBC greinir frá.

Affallsvatnið kemur frá gamalli áburðarverksmiðju og því inniheldur vatnið úr tjörninni fosfór og nitur. Tjörnin er um 31 hektari að stærð, eða á við 44 fótboltavelli.

Á föstudag reyndu viðbragðsaðilar að hækka bakka tjarnarinnar til að hindra framgöngu affallsvatnsins en þær tilraunir mistókust. Síðan þá hafa viðbragðsaðilar aðallega reynt að pumpa vatninu burt úr tjörninni eða reynt að ryðja vatninu leið í burtu frá byggð.

Með því að lýsa yfir neyðarástandi á svæðinu, eins og nú hefur verið gert, segir DeSantis að hægt sé að veita auknu fjármagni í björgunaraðgerðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert