„Ég brenn fyrir þetta“

Guðmundur segist vera í handboltanum af ástríðu.
Guðmundur segist vera í handboltanum af ástríðu. AFP

Guðmundur Þ. Guðmundsson, landsliðsþjálfari karla í handknattleik, segist hafa meiri ástríðu fyrir íþróttinni ef eitthvað er heldur en þegar hann var að hefja þjálfaraferilinn fyrir rúmum þremur áratugum síðan. 

Mbl.is ræddi við Guðmund í Búdapest í dag en þangað kom íslenska liði í gær vegna lokakeppni EM. Fyrsti leikur Íslands er á föstudagskvöldið gegn Portúgal. Finnur Guðmundur fyrir fiðrildi í maganum þegar hann er kominn á keppnisstaðinn?

„Já það er alltaf. En ég myndi frekar segja að þessu fylgi tilhlökkun og eftirvænting. Nú er ég sem þjálfari að taka siðustu ákvarðanir um marga þætti. Við erum búnir að negla niður sóknarleikinn endanlega en það hefur verið í mótun í nokkra daga. Við eigum eftir örfá atriði varðandi vörnina. Erum að velta fyrir okkur áherslubreytingum og lausnum enda er ávallt hægt að gera hlutina á fleiri en einn veg. Þar eru nokkur atriði sem við erum endanlega að negla niður og munum æfa á morgun. Auk þess er ég nánast búinn að taka ákvörðun um hvernig hópurinn lítur út í fyrsta leiknum og hverjir byrja. Vonandi verða ekki einhver áföll fram að því, smit eða meiðsli. Í aðdragandum er maður að vinna með ýmsa hluti í sambandi við þetta,“ sagði Guðmundur og nefndi nýtt atriði í sambandi við undirbúning liðsins. 

„Við tökum upp allar æfingar til þess að greina allt sem gerist á æfingunni. Ég tel þetta mjög mikilvægt en við höfum ekki gert svo mikið af þessu áður. Æfing dagsins er tekin upp og greind og klippt í forriti sem við höfum til þess. Á fundi með leikmönnum er hægt að fara yfir ákveðin atriði, hvort sem það er eitthvað sem þarf að skerpa á eða það sem hefur gengið vel. Við höfum því alveg nóg að gera og maður einbeitir sér að því.“

Guðmundur Þ. Guðmundsson á hliðarlínunni í leiknum um bronsverðlaun á …
Guðmundur Þ. Guðmundsson á hliðarlínunni í leiknum um bronsverðlaun á EM 2002, gegn Dönum í Stokkhólmi. Fyrir aftan má sjá frá vinstri: Halldór Ingólfsson, Gunnar Berg Viktorsson, Róbert Sighvatsson, Ragnar Óskarsson og Bjarna Frostason. mbl.is/Brynjar Gauti

Guðmundur þekkir stórmótin í handboltanum inn og út. Fór fyrst sem leikmaður á Ólympíuleikana í Los Angeles árið 1984 og fyrst sem landsliðsþjálfari á EM 2002. Auk þess hefur hann farið með lið Barein og Danmerkur á stórmót. Stórmótin eru vel á þriðja tug. Hefur Guðmundur alltaf jafn mikla ánægju af þessu?

„Já ég hef það. Handboltaþjálfun er ástríðustarf og þannig er það ennþá hjá mér sem betur fer. Ég brenn fyrir þetta og brenn jafn mikið núna og þegar ég var að byrja. Ég finn engan mun á því og ef eitthvað er er ég ennþá virkari en ég var. Við vinnum mjög mikið á milli æfinga í þessum undirbúningi og það hefur ekki breyst,“ sagði Guðmundur þegar mbl.is ræddi við hann í Búdapest í dag.  

Guðmundur Þ. Guðmundsson og aðstoðarmaðurinn Gunnar Magnússon stinga saman nefjum.
Guðmundur Þ. Guðmundsson og aðstoðarmaðurinn Gunnar Magnússon stinga saman nefjum. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert