Innlent

Forsetafrúin spyr: #erukonurtil?

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Hvar er Eliza?
Hvar er Eliza?

Eliza Reid forsetafrú spyr að því á Facebook í dag hvort konur séu ekki til en tilefnið er myndatexti sem birtist á forsíðu Morgunblaðsins í dag. Textinn fylgir mynd af Elizu heilsa Friðriki krónprinsi Danmerkur en forsetafrúarinnar er hvergi getið.

„Í stuttu máli er myndatextinn á forsíðu blaðsins í dag svona: Einn karlmaður sem ber nafn kom í kvöldverð hjá öðrum karlmanni sem ber nafn. Með gestinum var þriðji karlmaðurinn sem heitir líka nafni [sést ekki á myndinni]. Meira var það ekki,“ segir Eliza á Facebook.

Færsluna taggar hún með myllumerkinu #erukonurtil og á ensku #dowomenexist.

Fjölmargir hafa „like“-að færsluna og lýst hneykslan sinni á vinnubrögðum blaðsins.

Myndatextinn ber yfirskriftina „Ræddu saman yfir kvöldverði“ og er svohljóðandi:

„Friðrik krónprins Danmerkur kom hingað til lands í gær og snæddi kvöldverð á Bessastöðum með forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni. Með prinsinum í för var utanríkisráðherra Danmerkur, Jeppe Kofod, og sendinefnd tíu danskra fyrirtækja og samtaka. 

Prinsinn og sendinefndin eru hér á landi til þess að styrkja viðskiptatengsl Íslands og Danmerkur á sviði sjálfbærra lausna í orkumálum. Friðrik krónprins mun ræða við leiðandi aðila í þróun orkumála hér á landi meðan á heimsókn hans stendur. Er landið fyrsti áfangastaður krónprinsins í ferðum hans í þágu Danmerkur eftir heimsfaraldurinn. 

Kvöldverðinn á Bessastöðum í gær sátu einnig Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra Íslands, Kirsten Geelan sendiherra Danmerkur á Íslandi, Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×