fbpx
Föstudagur 19.apríl 2024
Fréttir

Margrét trúði Halldóru fyrir ofbeldinu sem hún mátti þola á Hjalteyri – „Hennar heitasta ósk var að koma þessu upp á yfirborðið“

Ágúst Borgþór Sverrisson
Fimmtudaginn 25. nóvember 2021 21:00

Halldóra Lísbet og til hægri er Margrét en hún var um þrítugt er þessi mynd var tekin. Aðsent myndefni.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Möggu þótti óskaplega sárt að hún mátti aldrei tala um mömmu sína, þá var hún bara tekin afsíðis og stungið upp í hana sápustykki – hún mátti aldrei tala við bróður sinn, hann var nú veikur þarna, hann Steinar. Hún mátti heldur ekki hafa samband við hina bræðurna eða hugga þá ef eitthvað kom upp á,“ segir Halldóra Lísbet Friðriksdóttir. Halldóra vísar þarna til æskuvinkonu sinnar, Margrétar Wium Sigurðardóttur, sem lést fyrir aldur fram árið 2000. Margrét var ein barnanna sem fjallað var um í sláandi umfjöllun Stöðvar 2 og Vísis um barnaheimilið í Richard-húsi á Hjalteyri, sem rekið var á árunum 1972-1979.

Margrét var 9 ára er hún var vistuð í Richard-húsi á Hjalteyri vegna erfiðra heimilisaðstæðna á Akureyri. Þar voru einnig þrír bræður hennar. Yngstur þeirra var Steinar Sörensen sem var aðeins 6 mánaða er hann var vistaður á heimilinu og dvaldist þar í 8 mánuði. Hann hefur aldrei beðið þess bætur. Steinar hefur lengi barist fyrir því að yfirvöld láti rannsaka starfsemina í Richard-húsi, rétt eins og vistheimilanefnd lét rannsaka starfsemi ríkisrekinna vistheimila, t.d.  heimilisins á Breiðuvík og Kópavogshæli.

Steinar Immanuel Sörensen

Stígur fram til að styðja bræðurna í baráttunni

Systir Steinars, Margrét, dvaldist í fimm ár í Richard-húsi. Þar varð hún fyrir líkamlegu, andlegu og kynferðislegu ofbeldi. Margrét lýsti dvöl sinn í dagbókarskrifum og hún stefndi að því að stíga fram með sögu sína og afhjúpa það sem átti sér stað á heimilinu. En henni entist ekki aldur til þess því Margrét dó langt fyrir aldur fram af krabbameini, frá fimm börnum.

Halldóra, sem er ári aldri en Margrét, steig í dag fram með opna færslu á Facebook þar sem hún greinir frá því ofbeldi sem hún veit að Margrét varð fyrir á heimilinu því Margrét trúði henni fyrir því. Hún er þó ekki tilbúin að greina frá öllu sem þeim fór á milli. Tilgangur Halldóru með þessum skrifum er að styðja bræðurna Sören og Jón Hlífar í baráttu þeirra fyrir því að að opinber rannsókn verði gerð á starfseminni í Richard-húsi.

„Við vorum ofboðslega góðar vinkonur þegar við vorum í Hjalteyrarskóla og svo var hún með mér í herbergi í Þelamerkurskóla á heimavist og við spjölluðum um ýmislegt en sumt fer ekki lengra,“ segir Halldóra í viðtali við DV.

Hjónin Einar og Beverly Gíslason ráku heimilið en Einar var líka kennari í Hjalteyrarskóla, þar sem þær Halldór og Margrét kynntust. Halldóra segir að framganga Einars í skólanum hafi einkennst af skapofsa og trúarofstæki. „Þessi maður gekk berserksgang í skólanum og hann var ofstækisfullur. Ef við vorum að spila frammi á gangi tók hann spilin af okkur, sagði að þau væru verkfæri djöfulsins og henti þeim í ruslið.“

Á sínum tíma hafði Halldóra mjög vonda upplifun af Richard-húsi. „Hún fékk aldrei að fara neitt nema bara beint í skólann og heim. Ég fékk einu sinni að fara í heimsókn til hennar og á meðan ég var þarna sátum við bara við eldhúsborðið og það voru engir krakkar sjáanlegir, þau voru, held ég, lokuð inni einhvers staðar svo að þau væru ekkert að kvabbast í mér. Þó var ég bara krakki. Mín upplifun þarna var mjög skrýtin, við vorum að föndra einhverja engla og fiðrildi úr böndum með límbandi og það stóð alltaf einhver yfir okkur á meðan.“

Mátti ekki tala um móður sína, mátti ekki sinna bræðrum sínum

Meðal líkamlegra refsinga sem Margrét og önnur börn urðu fyrir á heimilinu, að sögn Halldóru, var að sápustykki var troðið upp í þau, þau voru læst inni í myrkvaðri kompu, dregin á eyrunum og barin með  beltum.

Auk þess hafi allt verið tekið frá þeim, þar á meðal afmælisgjafir og jólagjafir sem þau komu með frá foreldrum sínum. Togað hafi verið í hárið á þeim og það klippt gegn vilja þeirra. Einnig hafi gítar sem drengur átti verið brotinn af því hann hafði spilað á hann í húsinu, sem hann mátti ekki.

Halldóra segir að Margrét hafi ekki mátt hafa samskipti við bræður sína og hún mátti ekki hugga Steinar, litla bróður sinn, þó að hann væri hágrátandi.

„Þau máttu ekki tala um að þau væru systkini í eyru Einars og Beverly, vegna þess að fyrir þeim voru þau bara ein fjölskylda og Einar og Beverly voru foreldrarnir. Þetta var sett alla leið þangað,“ segir Halldóra.

„Hún var mjög glöð þegar hún komst á Þelamörk, ári á eftir mér því ég var ári eldri,“ segir Halldóra en þær vinkonurnar voru þar saman á heimavist. Um helgar fóru nemendurnir til heimila sinna. „Hún kveið alltaf fyrir því að fara heim um helgar í Richard-hús en þó hlakkaði hún til að hitta bræður sína, þannig að þetta togaðist á í henni, en við vorum alltaf keyrð heim í rútunni á föstudögum.“

Óendanlega sorglegt

Halldóra segir óendanlega sorglegt að Margrét hafi látist ung frá fimm börnum. Þá bjó hún í Reykjavík en Halldóra var á Akureyri, líka með stóra fjölskyldu. Þær hittust því ekki eins oft og þær hefðu viljað.

„Ég kom suður og heimsótti hana á sjúkrastofnunina þar sem hún lá síðustu mánuðina. Það var átakanlegt að horfa upp á þessi fimm ungu börn missa móður sína.“

Einna sárast sé að Margréti hafi ekki enst aldur til að draga fram í dagsljósið sannleikann um það sem hún mátti þola á heimilinu á Hjalteyri. Margrét segir að það verði að rannsaka starfsemina í Richard-húsi.

„Því miður virðist svona framkoma gegn börnum hafa tíðkast hér áður fyrr. Vonandi ekki lengur, maður krossar fingur. Við bara vitum það ekki,“ segir Halldóra.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fréttir
Í gær

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar

Segist enga tengingu hafa við heimalandið en verður samt að sitja í fangelsi þar
Fréttir
Í gær

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu

Kíghósti greinist hjá nokkrum ótengdum einstaklingum á höfuðborgarsvæðinu