Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í morgun að stýrivextir bankans yrðu hækkaðir úr 3,75% í 4,75%. Jafnframt telur nefndin líklegt að herða þurfi taumhald peningastefnunnar enn frekar til að tryggja að verðbólga hjaðni í markmið „innan ásættanlegs tíma“.

Á blaðamannafundi sem hefst klukkan 9:30 munu Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar, og Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, gera grein fyrir ákvörðun nefndarinnar, yfirlýsingunni og efni Peningamála.

Í yfirlýsingu peningastefnunefndar var minnst á að verðbólguvæntingar hafi hækkað á flesta mælikvarða og séu yfir verðbólgumarkmiði. Verðhækkanir séu á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hafi aukist.