Fyrsti titillinn í 68 ár?

Stuðningsfólk Newcastle er að vonum ánægt með gengi liðsins í …
Stuðningsfólk Newcastle er að vonum ánægt með gengi liðsins í vetur. AFP/Paul Ellis

Eftir sigur á Southampton í undanúrslitum ensku deildabikarkeppninnar í gærkvöld á Newcastle möguleika á að vinna sinn fyrsta titil í enska fótboltanum í 68 ár.

Newcastle varð bikarmeistari árið 1955, þá í sjötta skipti, en hefur ekki unnið þá keppni síðan og tapað þremur úrslitaleikjum, árin 1974, 1998 og 1999.

Newcastle varð síðast enskur meistari árið 1927 og vann þá meistaratitilinn í fjórða sinn. Liðið komst næst því árin 1996 og 1997 þegar það endaði í öðru sæti.

Gordon Lee þjálfari KR 1985-87 með þáverandi formanni knattspyrnudeildar KR, …
Gordon Lee þjálfari KR 1985-87 með þáverandi formanni knattspyrnudeildar KR, Gunnari Guðmundssyni. Lee stýrði Newcastle á Wembley árið 1976.

Newcastle hefur aðeins einu sinni áður leikið til úrslita um deildabikarinn. Það var árið 1976, þegar liðið tapaði 2:1 fyrir Manchester City í úrslitaleik á Wembley. Þess má geta að Gordon Lee, sem þjálfaði KR-inga árin 1985 til 1987, var þá knattspyrnustjóri Newcastle og er því eini stjórinn í sögu félagsins til þessa sem hefur stýrt liðinu í úrslitaleik deildabikarsins.

Það skýrist í kvöld hvort það verður Manchester United eða Nottingham Forest sem mætir Newcastle í úrslitaleiknum en United stendur vel að vígi eftir 3:0-sigur í fyrri leiknum á útivelli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert