Allt liðið í fjórtán daga einangrun

Pal Dardai knattspyrnustjóri Herthu Berlín er með kórónuveiruna og allt …
Pal Dardai knattspyrnustjóri Herthu Berlín er með kórónuveiruna og allt liðið er á leið í einangrun. AFP

Allir leikmenn og þjálfarar þýska knattspyrnuliðsins Hertha Berlín eru komnir í fjórtán daga einangrun, frá og með morgundeginum. Félagið tilkynnti þetta á heimasíðu sinni í kvöld.

Í gær greindist Marvin Plattenhardt, leikmaður Herthu, með kórónuveiruna og í kjölfarið  sömuleiðis þeir Pal Dardai knattspyrnustjóri, Admir Hamzagic aðstoðarþjálfari og sóknarmaðurinn Dodi Lukebakio.

„Við neyðumst til að fara í fjórtán daga einangrun. Út frá heilbrigðissjónarmiði er það það eina rétta í stöðunni,“ segir Arne Friedrich íþróttastjóri félagsins á heimasíðunni.

Á næstu tveimur vikum á Hertha að mæta Mainz, Freiburg og Schalke í þýsku 1. deildinni og félagið hefur óskað eftir því að þeim verði frestað.

Þegar átta umferðum er ólokið í deildinni er Hertha í mikilli fallbaráttu og situr í fimmtánda sæti af átján liðum, jafnt Arminia Bielefeld sem er í sextánda sætinu, umspilssæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert