Netöryggisfyrirtækið Cyren tilkynnti í dag um að það hyggist segja upp 121 starfsmanni, eða nær öllum starfsmönnum félagsins sem stendur nú höllum fæti. Um þrjátíu starfsmönnum dótturfélags Cyren á Íslandi hefur verið sagt upp. Hallgrímur Thorberg Björnsson, yfirmaður Cyren á Íslandi, staðfestir þetta í samtali við Vísi.

„Þetta kemur öllum gífurlega á óvart. Þetta er ákvörðun sem var tekin af yfirstjórn fyrirtækisins í Bandaríkjunum og flestir fá uppsagnarbréf í gær,“ er haft eftir Hallgrími. „Þetta eru gríðarleg vonbrigði sérstaklega þar sem reksturinn sem við berum ábyrgð á hér á Íslandi gekk afar vel.“

Í tilkynningu félagsins segir ákvörðunin hafi verið tekin í ljósi versnandi efnahagshorfa og erfiðleika við að sækja aukið fjármagn. Stjórnendur Cyren gera ráð fyrir að þurfa að selja eignir eða leggja inn beiðni um gjaldþrotaskipti nái fyrirtækið ekki að bæta lausafjárstöðu sína.