Skoraði tvö mörk í naumum bikarsigri

Kristófer Ingi Kristinsson í leik með 21-árs landsliði Íslands.
Kristófer Ingi Kristinsson í leik með 21-árs landsliði Íslands. mbl.is/Hari

Kristófer Ingi Kristinsson skoraði tvívegis fyrir danska úrvalsdeildarliðið SönderjyskE þegar það lenti í óvæntum vandræðum í 32ja liða úrslitum dönsku bikarkeppninnar í dag.

Þægilegur sigur SönderjyskE virtist í höfn í byrjun síðari hálfleiks þegar Kristófer kom liðinu í 4:0 gegn B 1913  sem leikur í Danmarksserien, fimmtu efstu deild. En leikmenn B 1913 skoruðu þrjú mörk og hleyptu mikilli spennu í leikinn á lokamínútunum. Lokatölur urðu 4:3.

Kristófer kom til SönderjyskE frá Grenoble í Frakklandi í ágúst og þetta eru fyrstu mörk hans fyrir danska félagið en hann hefur spilað átta leiki með því í úrvalsdeildinni í haust.

Elías Rafn Ólafsson varði mark Midtjylland sem var ekki í vandræðum með lið úr sömu deild, Kjellerup, en þar vann úrvalsdeildarliðið auðveldan 5:0 útisigur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert