Hvar eru listaverkin?

Til vinstri má sjá verkið eftir Dirck de Bray en …
Til vinstri má sjá verkið eftir Dirck de Bray en til hægri eftir Robert van den Hoecke. Bæði verkin eru frá 17. öld. Samsett mynd

Kunsthaus-listasafnið í Sviss saknar tveggja málverka frá 17. öld. Talsmenn safnsins telja að þau hafi horfið þegar flytja þurfti nokkur hundruð listaverk til vegna lítilsháttar bruna sem kom upp í húsnæðinu í ágúst í fyrra. 

Safnið, sem er staðsett í Zürich í Sviss, hefur tilkynnt málið til lögreglu. Um er að ræða eitt málverk eftir flæmska listamanninn Robert van den Hoecke og annað eftir hollenska listamanninn Dirck de Bray. 

Forsvarsmenn safnsins segja að rúmlega 700 listaverk hafi verið flutt til hreinsunar og viðgerðar eftir að eldur kviknaði í húsnæðinu aðfaranótt 3. ágúst í fyrra. Síðan þá hafi ekkert spurst til fyrrgreindra listaverka. Segja má að þau hafi fuðrað upp í óeiginlegri merkingu. 

Umfangsmikil leit hefur farið fram innanhúss en án árangurs. Menn geta því ekki útilokað að listaverkunum hafi hreinlega verið stolið og var hinn meinti stuldur tilkynntur til lögreglu 13. janúar. 

Starfsmenn safnsins aðstoða lögreglu nú við rannsókn málsins og vonast menn til að málverkin skili sér í heilu lagi til baka. 

Þau hafa nú verið skráð í gagnagrunn yfir týnd listaverk (e. Art Loss Register), sem er sá stærsti sinnar tegundar í heimi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert